Daniel Elwell, yfirmaður flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum (Federal Aviation Administration), sagði frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í dag, að leiðarvísir fyrir flugmenn Boeing 737 Max véla, hafi ekki verið nægilega góður, þegar kemur að útskýringum á því hvernig ætti að lýsa hinu svonefnda MCAS-kerfi sem á að sporna gegn ofrisi.
Þingmenn bæði Repúblikana og Demókrata sóttu hart að fulltrúum yfirvalda, og beindu spurningum sínum ekki síst að því hvernig samskiptin hefðu verið milli bandarískra flugmálayfirvalda og Boeing.
Boeing er stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna, og hefur í gegnum tíðina átt í umfangsmiklu viðskiptasambandi við bandaríska ríkið, ekki síst í gegnum viðskipti Bandaríkjahers.
Talið er að flugslys í Indónesíu 29. október í fyrra og Eþíópíu 13. mars, megi rekja til galla í hugbúnaði skynjara, sem MCAS-kerfið byggir á, en samtals létus 346 í fyrrnefndum slysum, allir um borð í báðum vélum.
Lokaniðurstöður rannsókna flugmálayfirvalda í Indónesíu og Eþíópíu liggja ekki fyrir, en Boeing hefur viðurkennt að hafa vitað um galla sem tengjast búnaðinum, fyrir slysin.
Eftir seinna slysið var notkun á Max-vélunum bönnuð á heimsvísu, og vélarnar kyrrsettar.
Sú kyrrsetning hefur haft miklar afleiðingar í ferðaþjónustu í heiminum, þar meðal á Íslandi, eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans síðastliðinn föstudag.
Ekki liggur fyrir hvenær kyrrsetningunni verður aflétt, en Boeing vinnur nú að því að uppfæra búnaðinn í vélunum og endurheimta á þeim traust, hjá flugmálayfirvöldum um allan heim.
Fundað verður um Max-vélarnar 23. maí næstkomandi, samkvæmt umfjöllun Seattle Times, og mun Boeing þar reyna að sannfæra fulltrúa flugmálayfirvalda víðs vegar um heiminn, að Max-vélarnar séu traustar.