Mynd: Icelandair

Dýrkeypt leynimakk Boeing

Íslenskur flugiðnaður gengur nú í gegnum mikla erfiðleika. Gjaldþrot WOW air og kyrrsetning á 737 Max vélum Boeing hafa leitt til dramatískrar niðursveiflu sem ekki sér fyrir endann á. Bandaríska alríkislögreglan FBI er nú með málefni Boeing til rannsóknar og einkum samskipti þess við bandarísk flugmálayfirvöld. Hvernig verður leyst úr Max-vandanum á Íslandi? Var göllum í vélunum sópað undir teppið? Hvenær fá aðstandendur þeirra sem létust í tveimur flugslysum svör?

Þeir sem halda að Boeing sé að fara á haus­inn vegna kyrr­setn­ing­ar­innar á Max vélum fyr­ir­tæk­is­ins, ættu að hafa það í huga að félagið er stærsta útflutn­ings­fyr­ir­tæki Banda­ríkj­anna og á sér 103 ára sögu.

Banda­ríska ríkið hefur í gegnum tíð­ina verið einn stærsti við­skipta­vinur fyr­ir­tæk­is­ins, ekki síst í gegnum fjár­fest­ingar hers­ins. Verð­mið­inn á fyr­ir­tæk­inu hefur sveifl­ast í kringum 220 millj­arða Banda­ríkja­dala und­an­farin miss­eri, eða sem nemur um 27 þús­und millj­örðum króna.

Boeing er ekki að fara á haus­inn.

En það er ekki þar með sagt að félagið sé ekki í miklum vand­ræðum og ekki síður við­skipta­vinir þess. Boeing hefur veðjað að miklu leyti á Max vél­arn­ar. Flug­fé­lögin sem eru að not­ast við Boeing vélar hafa mörg hver end­ur­nýjað flota sína með Max vél­um, en pant­anir eru yfir 5 þús­und, en af þeim hafa tæp­lega 400 vélar verið afhent­ar.

Staðan núna snýst því um trú­verð­ug­leika vél­anna, og hvort þeim verði treyst. Far­þeg­arnir ráða ferð­inni og það er afleit staða fyrir flug­fé­lög að selja sæti í vélar sem hafa vont orð­spor.

Slysin hörmu­legu

Kyrr­setn­ingin á vél­unum kom til eftir flug­slys í Eþíóp­íu, 13. mars síð­ast­lið­inn, þegar 157 lét­ust skömmu eftir flug­tak Max vélar Ethi­opian Air­lines. Það var þá annað slysið á skömmum tíma þar sem Max vél hrap­aði með þeim afleið­ingum að allir um borð lét­ust. Fyrra slysið var 29. októ­ber í fyrra, þegar vél Lion Air í Indónesíu hrap­aði skömmu eftir flug­tak.  Þá lét­ust 189, allir um borð.

Frum­nið­ur­stöður rann­sókna á slys­unum hafa beint spjót­unum að svo­nefndu MCAS-­kerfi í vél­un­um, sem á að sporna gegn ofrisi. Yfir­völd í Indónesíu hafa kynnt frum­nið­ur­stöður rann­sóknar sinnar og segja að flug­menn hafi brugð­ist rétt við aðstæð­um, en ekki náð valdi á vél­inni vegna þess að hún virt­ist sífellt tog­ast niður til jarð­ar.

Loka­nið­ur­stöður rann­sókna liggja þó ekki fyr­ir.

Hverjar sem nið­ur­stöður rann­sókn­anna verða, þá er kyrr­setn­ingin mikið áfall fyrir ferða­þjón­ustu í heim­in­um, og ekki síst á Íslandi.

Fyrir lítið eyríki með 350 þús­und íbúa, sem á mikið undir ferða­þjón­ustu, þá er flug­brúin sér­stak­lega mik­il­væg - og þar eru vit­an­lega flug­vél­arnar grunn­ur­inn að góðum sam­göng­um.

Icelandair hefur lengi not­ast við Boeing vél­ar, og reynslan fram að þessu hefur verið góð. Nú þegar hafa þrjár vélar í flota Icelandair verið kyrr­settar og sam­kvæmt áætlun eiga sex vélar til við­bótar að koma í flot­ann.

Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að byrja nota vél­arnar aft­ur, og er staðan núna þannig að útlit er fyrir sam­drátt í sæta­fram­boði næstu mán­uði. Sam­kvæmt til­kynn­ingu til kaup­hallar verður 2 pró­sent sam­dráttur í sæta­fram­boði í sum­ar, og má að miklu leyti rekja það til kyrr­setn­ingar á Max vél­un­um. Eftir því sem það dregst á lang­inn, að notkun á vél­unum verði heim­il­uð, því alvar­legri verður staðan fyrir Icelandair og önnur flug­fé­lög sem hafa reitt sig á að fá vél­arnar afhentar og í notk­un.

Mikið högg fyrir hag­kerfið

Um 40 pró­sent af gjald­eyr­is­tekjum íslenska hag­kerf­is­ins kemur frá erlendum ferða­mönn­um. Eftir fall WOW air í lok mars, sem kom beint ofan í kyrr­setn­ingu á Max vél­un­um, þá hefur flug­brúin íslenska orðið mun umfangs­minni. Í fyrsta skipti síðan árið 2010 er ekki vöxtur í kort­unum í ferða­þjón­ustu heldur sam­drátt­ur, og það má beint rekja það til vanda flug­fé­lag­anna.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Í apríl var sam­drátt­ur­inn frá því árið á undan um 18 pró­sent, ef horft er til brott­fara erlendra ferða­manna frá Íslandi, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Ferða­mála­stofu. Til að setja þá tölu í sam­hengi, ef það yrði raunin fyrir árið í heild sinni, þá myndi það þýða að um rúm­lega 400 þús­und færri ferða­menn kæmu til lands­ins á þessu ári en komu í fyrra. Það er einnig tala sem nemur um 80 pró­sent af heild­ar­fjölda ferða­manna sem heim­sótti landið árið 2010, sem þá var um 450 þús­und.

Hvernig sem á málin er lit­ið, þá er þetta mikið högg fyrir þjóð­ar­bú­ið.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir, hefur talað opin­skátt um það, að Icelandair sé að horfa til þriggja sviðs­mynda, þegar kemur að því að styrkja flota félags­ins og mæta þeim áskor­unum sem félagið stendur frammi fyr­ir.

Mögu­leik­arnir eru þeir, að halda óbreyttri stefnu og not­ast við Max vél­arn­ar, 757 og 767 frá Boeing, og þetta verði grunn­vélar félags­ins næstu árin, til 2025 að minnsta kosti. Annar kostur er að taka inn Air­bus A321 vélar sem hægt er að nýta með Max vél­un­um, en þær falla vel að leiða­kerfi Icelanda­ir. Þriðji kost­ur­inn er að skipta alveg um flota og fara yfir í Air­bus vél­ar. Það er stór ákvörð­un, þar sem breyta þyrfti öllu innra skipu­lagi félags­ins í sam­ræmi við það.

FBI þrýstir á Boeing

Heima­völlur Boeing hefur frá upp­hafi verið á Seattle svæð­inu. Þar er félagið með um 80 þús­und starfs­menn, og er stærsti vinnu­veit­and­inn á svæð­inu. Seattle Times, stærsti og virt­asti fjöl­mið­ill­inn á svæð­inu, hefur fjallað mikið um Boeing frá því í upp­hafi árs í fyrra. Þá birt­ust umfjall­anir um mikla fram­leiðslu­pressu hjá Boeing, vegna þess hve margar Max vélar fyr­ir­tækið þurfti að afhenda við­skipta­vinum sín­um. Félagið skil­aði af sér 57 vélum á mán­uði þegar mest lét, en fram­leiðslan er í rúm­lega 40 núna að með­al­tali. Umfjall­anir birt­ust einnig um það að óánægju gætti hjá starfs­fólki sem teldi of geyst farið og að það bitn­aði meðal ann­ars á villu­próf­unum á flóknum hug­bún­aði í vél­un­um.

Í yfir­lýs­ingu 5. maí síð­ast­lið­inn við­ur­kenndi Boeing síðan í fyrsta skipti að félagið hefði vitað af galla í hug­bún­aði sem tengd­ist við­vör­un­ar­bún­aði í Max vél­un­um, sem var tengdur hinu svo­nefnda MCAS-­kerfi, sem nú er undir smá­sjánni vegna flug­slysanna í Indónesíu og Eþíóp­íu.

En félagið gerði ekk­ert með þessa galla, en hann var tal­inn vera minni­háttar og ekki ógna öryggi far­þega í vél­un­um. Yfir­stjórn fyr­ir­tæk­is­ins fékk ekki kynn­ingu á þessum göllum fyrr en eftir slysið í Indónesíu 29. októ­ber í fyrra. Síðan þetta gerð­ist er búið að hreinsa veru­lega til í verk­fræði­deild fyr­ir­tæk­is­ins, og í það minnsta fjórir yfir­menn hafa verið rekn­ir. Nú þurfa öll mál sem varða upp­færslu og mögu­lega galla, að fara beint inn á boð yfir­stjórnar fyr­ir­tæk­is­ins, en fyrir risa­fyr­ir­tæki eins og Boeing er þetta mikil stefnu­breyt­ing frá því sem verið hef­ur.

En hvers vegna var Boeing fyrst að greina frá þessu núna?

Í umfjöllun Seattle Times, og raunar fleiri fjöl­miðla sömu­leið­is, hefur komið fram að banda­ríska alrík­is­lög­reglan FBI sé með öll mál Boeing sem tengj­ast Max vél­unum til rann­sókn­ar, í kjöl­far flug­slysanna. Yfir­lýs­ingin hin 5. maí er meðal ann­ars talin vera sett fram í tengslum við þá rann­sókn, þar sem spjótin hafa beinst að því hvenær Boeing vissi af göllum í hug­bún­aði vél­anna og til hvaða aðgerða var grip­ið, á hvaða tíma­punkti. Und­ir­liggj­andi var síðan mikil pressa á að félagið gæti staðið við afhend­ingar á vél­unum á réttum tíma, enda miklir hags­munir í húfi fyrir flug­fé­lög og heilu hag­kerfin - eins og í til­felli Íslands.

Dennis Mui­len­burg, for­stjóri og stjórn­ar­for­maður félags­ins, hefur sagt að hann hafi fulla trú á Max vél­un­um. Ennþá hafi ekk­ert komið fram sem stað­festi að gallar í Boeing vél­unum hafi leitt til flug­slysanna. Á aðal­fundi félags­ins í apríl þurfti for­stjór­inn að grípa til varna þar sem stór hluti hlut­hafa gagn­rýndi hann harð­lega fyrir hvernig hann og hans með­stjórn­end­ur, hefðu haldið á mál­um. Full­trúar 34 pró­sent hlut­hafa vildu hann úr stjórn­ar­for­mennsku, en slíkt er oft fyrsta skrefið í Banda­ríkj­un­um, í átt að því að skipta alveg um stjórn­enda­teymi í fyr­ir­tækj­un­um. Venja er fyrir því að for­stjórar séu líka stjórn­ar­for­menn, í stórum skráðum félögum í Banda­ríkj­un­um, og því er oft ein­blínt á að hlut­hafar sendi skýr skila­boð um vilja til breyt­inga í gegnum stjórn­ar­kjör á hlut­hafa­fund­um, þegar óánægja er uppi.

For­stjór­inn fékk hins vegar nægi­legan stuðn­ing til að halda óbreyttu skipu­lagi, en ljóst er að kraum­andi óánægja er meðal margra hlut­hafa félags­ins vegna stöð­unnar sem upp er kom­in.

Rann­sókn FBI virð­ist einnig eiga sér dýpri ræt­ur. Þó ein­blínt sé að flug­slysin og hörmu­legar afleið­ingar þeirra, þá er einnig horft í það hvernig sam­skiptum félags­ins við flug­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­unum var hátt­að. Þar bein­ast spjótin meðal ann­ars að þess­ari miklu fram­leiðslu­pressu sem hefur verið á félag­inu, allt frá árinu 2011. Þá kom upp atvik sem leiddi til þess að allt var sett á fullt hjá Boeing, við að reyna að hindra frek­ari fram­gang Air­bus á mark­aðn­um.

Sum­arið 2011 frétt­ist það að rót­gró­inn við­skipta­vinur Boeing til ára­tuga, Amer­ican Air­lines, ætl­aði sér að fara kaupa 200 Air­bus vél­ar, og boða þar með stefnu­breyt­ingu í flota félags­ins. Stjórn­endur Boeing brugð­ust við með því að lofa breyttum vél­um, sem hefðu sömu eða betri eig­in­leika en Air­bus. Max vél­arnar koma fram upp úr þess­ari stöðu, en að lokum fór svo að Boeing náði til sín um helm­ingi af þess­ari pöntun á grund­velli þess að Max vélin væri lausnin sem Amer­ican Air­lines - og eftir atvikum aðrir við­skipta­vinir félags­ins - væru að leita að.

Frá upp­hafi var grunur uppi um að ekki væri vandað nægi­lega til verka í þess­ari vinnu, sam­kvæmt sem fram hefur komið í umfjöllun Seattle Times. Meðal ann­ars var ljóst, að hönnun 737 vél­anna var ekki nægi­lega hentug fyrir nýja og hag­kvæm­ari þotu­hreyfla. Meðal ann­ars þess vegna var meiri hætta á ofrisi vél­anna, heldur en áður, og var þörfin fyrir MCAS-­kerfið meðal ann­ars byggð á þessu.

Flug­menn ósáttir

Flug­menn Sout­hwest flug­fé­lags­ins, sem er stór við­skipta­vinur Boeing, hafa opin­ber­lega sett fram gagn­rýni á Boeing, fyrir að hafa ekki upp­lýst nægi­lega vel um virkni kerf­is­ins og hvað mögu­lega geti gerst. Stétt­ar­fé­lag flug­manna félags­ins setti fram form­lega kvörtun yfir þessu á miklum hita­fundi í kjöl­far seinna slyss­ins, en þá hafði félagið reynt að fá svör frá Boeing við spurn­ingum sem brunnu á félags­mönnum eftir slysið í Indónesíu.

Enn sem komið er hefur Boeing ekki svarað stétt­ar­fé­lag­inu sér­tækt, en félagið hefur að mestu stjórnað upp­lýs­inga­gjöf sinni með opin­berum yfir­lýs­ingum frá því að slysin áttu sér stað, enda félagið skráð á markað og þarf að upp­lýsa fjár­festa þannig að jafn­ræðis sé gætt. Við­skipta­vinir hafa vita­skuld verið í sam­bandi við Boeing og reynt að fá upp­lýs­ingar um hvernig landið ligg­ur; hvenær Max vél­arnar geti mögu­lega verið til­búnar til notk­unar og flug­banni aflétt.

Einn hlut­inn snýr síðan að mögu­legum skaða­bótum Boeing til flug­fé­laga, vegna galla í Max vél­unum og tafa á afhend­ingu þeirra til notk­un­ar. Fá for­dæmi eru fyrir slíku, og ekki aug­ljóst að flug­fé­lög eigi rétt á bót­um. Nýlegar yfir­lýs­ingar Boeing, þar sem gallar eru við­ur­kenndir - án þess að flug­fé­lög eða flug­mála­yf­ir­völd - hafi verið upp­lýst um þá, gætu sett málin í annan og jákvæð­ari far­veg fyrir flug­fé­lög­in, hvað bætur varð­ar. En þær verða ekki hristar fram úr erminni, heldur nið­ur­staða samn­inga­við­ræðna yfir lengri tíma.

Verðhækkanir á versta tíma

FVerðbólgudraugurinn er vaknaður og ástæðan er meðal annars sú, að flugfargjöld hafa hækkað hratt að undanförnu. Í síðustu verðbólgumælingum var hækkunin á flugfargjöldum um 20 prósent, og fór verðbólgan úr 2,9 prósent í 3,3 prósent.

Greinendur á markaði nefndu flugfargjöldin sérstaklega sem áhættuþátt, fyrir komandi verðbólguhorfur á markaði. Þessar hækkanir eru ekki óvæntar. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur ítrekað minnst á það að undanförnu, bæði ítarlega í ræðu á ársfundi og eins í styttri viðtölum, að ósjálfbærni í verðlagningu flugfargjalda gangi ekki til lengdar, og stórskaði ferðaþjónustuna.

Óhætt er að segja að WOW air hafi boðið lág flugfargjöld, og nú er orðið augljóst að félagið var komið í vanda - einkum á síðasta eina og hálfa árinu í rekstri félagsins - löngu áður en félagið varð gjaldþrota.

Neytendur finna fyrir þessu - ekki bara falli félagsins, heldur versnandi rekstrarhorfum í fluginu almennt - með hærri flugfargjöldum. Icelandair hefur líka verið í miklum vanda, og tapaði 13,5 milljörðum króna á sex mánaða tímabili, frá lokum síðasta árs og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Það eru 75 milljónir á hverjum degi, á fyrrnefndu tímabili.

Krefjandi verður líklega áfram í flugiðnaðinum íslenska, og ekki ólíklegt að spilaður verði varnarleikur frekar en sóknarleikur næstu misseri. Icelandair fékk inn nýjan hluthafa, bandaríska félagið PAR Capital, sem á nú orðið rúmlega 12 prósent í Icelandair. Samkvæmt viðmælendum Kjarnans, sem þekkja vel til rekstrar Icelandair og flugrekstrar, þá er þessi innkoma afar mikilvæg á þessum tímapunkti í sögu félagsins. Félagið er með eignasafn sem er tengt Boeing, óbeint og beint, og er meðal stærstu hluthafa Southwest, Delta, Expedia, Trip Advisor og Booking, svo nefndir séu nokkrir risar í ferðaþjónustu á heimsvísu. Með þennan hluthafa geti félagið skapað trúverðugleika gagnvart alþjóðlegum flugiðnaði, og jafnvel skapað sér betri samningsstöðu í endurskipulagningu á flota félagsins, hvaða leið sem farin verður í því.

Augljóst er þó, að það getur komið til þess að frekari hlutafjáraukningu muni þurfa til, ef það dregst á langinn að Max vélarnar verði kyrrsettar. Það segir sína sögu um hversu erfitt umhverfið er þessi misserin, að eiginfjárhlutfall Icelandair lækkaði úr 32 prósent um áramót niður í 23 prósent þremur mánuðum síðar, á fyrsta ársfjórðungi ársins. Engu að síður er fjárhagsstaðan sterk, á flesta mælikvarða. Eigið fé félagsins var 425 milljónir Bandaríkjadala í lok mars, eða sem nemur um 52 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins hefur sveiflast nokkuð á undanförnum mánuðum, á milli 40 og 50 milljarða.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar