„Ef ég skrúfa væntingarnar upp þá getur hún skilað umtalsverðum fjárhagslegum árangri fyrir ríkið.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um samstarf Íslands, Danmerkur og Noregs á sviði lyfjamála sem staðfest var með undirritun samkomulags í Reykjavík í apríl. Hún segir að ávinningurinn verði bæði fyrir notendur lyfja og skattgreiðendur. Innkaup verði hagstæðari og þar af leiðandi verði minni hluta af fjármagni ríkissjóðs í lyf en öryggi í lyfjainnkaupum muni einnig aukast vegna samtakamáttarins sem fæst með samstarfinu.
Svandís var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Svandís benti á að í fyrra hafi kostnaður hins opinbera vegna innkaupa á svokölluðu S-lyfjum, sem eru sjúkrahúslyf, verið 7,5 milljarðar króna. Á þessu ári er áætlað að hann veðri tíu milljarðar króna. Hún segir það ekki flókið reikningsdæmi að ef útgjöld halda áfram að aukast á slíkum hraða þá muni ganga mjög hratt á aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar og alls opinbera kerfisins. „ Við verðum að reyna að stilla saman strengi til þess að ná þessu og þetta var verulegur áfangi. Það hefur verið að þessu keppt í mörg herrans ár.“
Aðspurð hvort að þetta samstarf muni leiða til þess að milliliðir milli hins opinbera sem kaupanda lyfja, og framleiðenda þeirra sem seljanda, verði einfaldlega sniðgengnir í framtíðinni og keypt yrði beint frá framleiðanda, segir Svandís að það gæti orðið hluti af lausninni.