„Tölfræðin segir okkur það að verði ekki til þess að þungunarrof sé framkallað síðar.“ Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra aðspurð um það hvort að því fylgi aukning í þungunarrofi ef að ramminn til að framkvæma slíkt er lengdur.
Hún bendir á að tölur frá Hollandi, þar sem ramminn fyrir þungunarrof er 22 vikur, Bretlandi, þar sem ramminn er 24 vikur, og frá Kanada, þar sem enginn rammi er, styðji þetta. „
„Í raun og veru þá virðist þetta hafa virkað þannig að þegar fresturinn er lengri þá virðist svo vera að tíðnin aukist ekki síðar. Það verður ekki til þess að það verði algengara að þungunarrof sé framkvæmt seint. Heldur þvert á móti.“
Þetta er meðal þess sem Svandís sagði í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur var í gær.
Hægt er að sjá stiklu úr viðtalinu hér að neðan.
Þungunarrofsfrumvarp Svandísar var samþykkt á Alþingi á þriðjudag með 40 atkvæðum gegn 18, en þrír sátu hjá, í atkvæðagreiðslunni. Málið var umdeilt og klauf flokka. Þannig greiddi t.d. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, atkvæði gegn frumvarpinu, einn ráðherra í ríkisstjórn.
Svandís bendir á að frumvarpið hafi notið mikils stuðnings, sem hafi farið þvert á hefðundnar víglínur stjórnar og stjórnarandstöðu. Á endanum hafi fimm flokkar staðið heilir á bakvið frumvarpið, tveir úr stjórn og þrír úr stjórnarandstöðu. „Stuðningur við frumvarpið varð, þegar öll er á botninn hvolft, mjög mikill og umtalsvert meiri en sem nemur venjulegum stjórnarmeirihluta því að stuðningurinn var 40 atkvæði.“
Hún segir að það hafi verið rætt á sínum tíma þegar síðasta löggjöf um málið var sett, á áttunda áratug síðustu aldar, að sjálfsákvörðunarréttur kvenna ætti að vera kjarni þeirrar löggjafar. „Það var í raun og veru brotið á bak aftur og búin til einhverskonar málamiðlun sem að fól það í sér a ðnefnd þyrft iað koma að. Ég hef verið þeirrar skoðunar alla tíð að þetta hafi verið barns síns tíma í raun og veru strax og löggjöfin varð til 1975. Það eru 44 ár síðan.“
Svandís segir að þegar hún kom heilbrigðisráðuneytið hafi verið tilbúin drög að frumvarpi um málið sem síðustu tveir ráðherrar málaflokksins, Kristján Þór Júlíusson og Óttars Proppé, höfðu komið að. „Þegar ég kem að borðinu, sem femínisti og baráttukona fyrir jafnri stöðu kynjanna, þá fannst mér algjörlega einboðið að fara í þetta mál.“
Verið sé að færa löggjöfina til nútímans og styrkja stöðu kvenna á sama tíma og löggjöf í ýmsum löndum í kringum okkur og sérstaklega í Bandaríkjunum er að að toga í hina áttina. „Áskorunin var ennþá meiri vegna þess að við eru ekki á frjálslyndisbylgu akkúrat núna heldur meira að vinna gegn afturhaldsbylgju.“