Nokkrir eigendur fasteigna á Grandanum hafa kært starfrækslu neyðarskýlis fyrir þá sem eru heimilislausir á svæðinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kærunni er lýst yfir áhyggjum um að gistiskýli falli illa að starfseminni á svæðinu og að þeim hópi manna sem gisti í skýlinu fylgi ýmisskonar félagsleg vandamál sem muni koma harkalega niður á starfsemi svæðisins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fjöldi heimilislausra nærri tvöfaldaðist frá árinu 2012
Í nóvember í fyrra samþykkti borgarráð kaup á húsnæði við Grandagarð sem notað verður sem neyðarskýli fyrir unga karlmenn í vímuefnaneyslu. Stefnt er að því að neyðarskýlið verði opið frá klukkan 17 til klukkan 10 næsta dag og hægt verði að taka á móti 15 einstaklingum í einu.
Vakin hefur verið athygli á því að brýn þörf sé á fleiri úrræðum fyrir utangarðsfólk hér á landi en fjöldi heimilislausra nærri tvöfaldaðist á árunum 2012 til 2017. Árið 2017 voru 349 manns skráðir utangarðs og/ eða heimilislausir í borginni, en það eru 95 prósent fleiri en þegar sambærileg mæling var síðast gerð árið 2012. Áfengisvandi og misnotkun annarra vímuefna eru talin helsta orsök þess að einstaklingar lendi utangarðs en næstalgengasta orsökin eru geðræn vandamál.
Úrræðin ekki nægileg
Í skýrslu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um hagi utangarðsfólks í Reykjavík árið 2017 kom fram að af þeim 349 sem skráðir eru utangarðs voru 153 einstaklingar sagðir búa við ótryggðar aðstæður, 118 voru sagðir gista í gistiskýli og 76 einstaklingar voru sagðir hafast við á götunni að einhverju leyti.
Í Reykjavík eru 24 „Heimili fyrst“ íbúðir í boði en önnur úrræði fyrir heimilislausa og utangarðsfólk eru áfangaheimilið fyrir 37 einstaklinga, stuðningsheimili fyrir 8 karlmenn og 5 konur. Ásamt því eru til staðar tvö neyðarskýli í Reykjavíkurborg en hið þriðja á að bætast við á þessu ári á Grandagarði. Engin dagdvöl er í dag í boði fyrir utangarðsfólk.
Í áliti Umboðsmanns um stöðu utangarðsfólk segir að húsnæðisúrræði séu ekki nægileg. Hann bendir á að félagsleg leiguhúsnæði standi utangarðsfólki sem glímir við áfengis- og/eða vímuefnavanda í raun ekki til boða.
Samræmist ekki starfsemi á svæðinu
Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins segir í kæru eigendanna að þeir telji að starfræksla neyðarskýlis samræmist ekki þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu. Í kærunni er greint frá því hvernig svæðið hefur vaxið hratt og sé nýtt undir veitinga- og verslunarstarfsemi, auk hönnunar og nýsköpunar.
Þá er verulegum áhyggjum lýst yfir því að neyðarskýlið sé sérstaklega ætlað þeim sem neiti vímuefna í æð. „Ljóst er að slíkum hópi manna munu fylgja ýmiss konar félagsleg vandamál sem munu koma harkalega niður á þeirri starfsemi sem nú blómstrar á svæðinu,“ segir í kærunni. Ekki er tekið nánar fram í kærunni hvernig umrædd félagsleg vandamál muni bitna á starfsemi fyrirtækja út á Granda.
Kærendurnir krefjast því ógildingar á leyfisveitingu til innréttingar gistiskýlisins með vísan til þess að starfsemin samræmist hvorki skipulagsáætlunum né lóðarleigusamningi. Borgin hins vegar mótmælir þeim forsendum enda sé um þjónustustarfsemi að ræða og því í fullu samræmi við skipulag svæðisins.