Skýrsla um #metoo og Stjórnarráð Íslands sem vinnustað var kynnt í ríkisstjórn í gærmorgun en skýrslan var unnin af stýrihópi um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Frá þessu er greint í frétt forsætisráðuneytisins.
Niðurstaða athugunar stýrihópsins er að öll ráðuneyti séu fær um að bregðast við kynferðislegri og kynbundinni áreitni þangað til hún kemur upp. Í skýrslunni segir að með þessu sé átt við að almennt séu fyrir hendi þeir verkferlar sem kveðið er á um í lögum og reglum um vinnuvernd og starfsfólk fær reglulega tækifæri til að kynna sér þá ferla og um leið hvert það getur leitað ef mál kemur upp. Aftur á móti þyrftu ráðuneytin að standa betur að gerð áhættumats og þá með tilliti til andlegra og félagslegra þátta, og byggja bæði forvarnir og fræðslu á slíku mati.
Hvatning ekki borið tilskildan árangur
Ráðuneytin hafa brugðist við niðurstöðum kannana um áreitni eftir því sem við á, samkvæmt skýrsluhöfundum. „Niðurstöður hafa verið kynntar á starfsmannafundum og í þeim tilfellum þar sem áreitni hefur mælst hafa starfsmenn verið hvattir til að koma með slík mál upp á yfirborðið. Sú hvatning hefur á hinn bóginn, að því er vitað er, ekki borið tilskildan árangur og svo virðist sem starfsfólk sé ólíklegt til að tilkynna mál sem koma upp. Í þessu sambandi hefur verið bent á að þótt leita megi til ólíkra aðila innan hvers ráðuneytis, komi það oftast í hlut sömu einstaklinga eða einstaklings að fjalla um mál,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni eru lagðar til eftirfarandi aðgerðir:
- Skipað verði óháð fagráð, sem hafi það hlutverk að taka við, meta og fara með tilkynningar og ábendingar sem því berast um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
- Endurskoðun á Stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi verði fram haldið og skerpt verði á verkferlum í tilfellum þar sem undirstofnanir leita ráða um málsmeðferð.
- Stjórnarráðsdagurinn 2019 verði helgaður #metoo.
- Gert verði átak í að efla fræðslu og umræðu til að byggja upp vinnustaðamenningu þar sem kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi fær ekki að líðast. Jafnréttisstofu verði falið að taka saman yfirlit yfir fræðsluefni sem þegar er til og að útbúa fræðslupakka til þriggja ára sem ráðuneytin geta nýtt sér. Þá verði Jafnréttisstofu falið að gera tillögu um bætta fræðslu fyrir nýliða innan Stjórnarráðsins.
- Kannaður verði fýsileiki þess að útbúa Jafnréttisskref fyrir starfsemi vinnustaða, sambærileg Grænu skrefunum um vistvænan rekstur.
- Ráðuneytin tryggi að jafnréttisfulltrúar hafi forsendur, burði og svigrúm til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem á borði þeirra eru.
Fólk velur að láta sem ekkert hafi í skorist
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að konur séu meirihluti starfsfólks innan Stjórnarráðsins. Þrátt fyrir það séu karlar líklegri til að gegna stjórnendastöðum. Karllæg vinnustaðamenning virðist ekki algeng innan Stjórnarráðsins en ekki þurfi nema einn eða tvo starfsmenn til að spilla starfsandanum, til að mynda með óviðeigandi athugasemdum á kaffistofu eða óviðurkvæmilegri hegðun á starfsmannaskemmtunum. Starfsfólk og stjórnendur virðast almennt ekki vel búin undir að takast á við slíkt í almennum störfum, og líklegast virðist að fólk velji að láta sem ekkert hafi í skorist.