„Siðanefnd Alþingis telur alvarlegra að benda á samtryggingu og sjálftöku heldur en að taka þátt í leiknum. Ég sætti mig ekki við það og mun nýta minn andmælarétt til þess að fá þessu hnekkt,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.
Eins og fram kom í fréttum í morgun þá telur siðanefnd Alþingis að ummæli Þórhildar Sunnu, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 um akstursgreiðslur þingsins til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.
Þórhildur Sunna segir að fái þessi niðurstaða að standa séu skilaboðin til okkar allra þau að það sé verra að benda á vandamálin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er algerlega búin að fá nóg af slíkri meðvirkni,“ segir hún.
Ásmundur óskaði eftir því við forsætisnefnd þann 10. janúar síðastliðinn að tekið væri til skoðunar hvort þingmenn Pírata Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglurnar.
Niðurstaða siðanefndar er sem fyrr segir að ummæli Þórhildar Sunnu frá 25. febrúar 2018 séu ekki í samræmi við a- og c-lið 1. mrg. 5. gr. og 7 gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Í þeim segir að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.
Siðanefnd kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ummæli Björns Levís hafi ekki brotið í bága við siðareglurnar.
Siðanefnd Alþingis telur alvarlegra að benda á samtryggingu og sjálftöku heldur en að taka þátt í leiknum. Ég sætti mig...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Friday, May 17, 2019