Eftir að lággjaldaflugfélög höfðu rutt til rúms í heiminum og sífellt auðveldara varð fyrir fólk að sníða ferðalög eftir eigin höfði þá spáðu margir að tími ferðaskrifstofa væri að líða undir lok. Hér á landi hefur það hins vegar ekki verið raunin en á síðustu árum hefur ferðaskrifstofum fjölgað gríðarlega. Þá hefur hlutdeild ferðaskrifstofa í heildarneyslu erlendra ferðamanna rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009 en hver ferðamaður sem kom til landsins árið 2017 varði 19 prósent af heildarneyslu sinni í ferðaskrifstofur.
Ferðamenn verja nú um fjórðungi fleiri krónum í ferðaskrifstofur
Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu er greint frá því krónan var að jafnaði um 30 prósent sterkari árið 2018 en hún var fyrir uppgang ferðaþjónustunnar árið 2009. Þar sem neysla ferðamanna í erlendri mynt hefur ekki dregist saman yfir tímabilið 2009 til 2017 má samkvæmt skýrslunni gróflega áætla að sterkari króna hafi leitt til þess að hver ferðamaður skili um þessar mundir rúmlega fjórðungi færri krónum til þjóðarbúsins árið 2017 en á árinu 2009 á föstu verðlagi.
Í skýrslunni segir jafnframt að sú þróun leyni sér ekki þegar neysla ferðamanna eftir útgjaldaliðum er skoðuð, að tveimur útgjaldaliðum undanskildum: Ferðaskrifstofum og menningarstarfsemi. Ferðaskrifstofur fengu um fjórðungi fleiri krónur á hvern ferðamann sem hingað kom á árinu 2017 miðað við árið 2009.
Þá hefur hlutdeild ferðaskrifstofa í heildarneyslu erlendra ferðamanna rúmlega tvöfaldast á áðurgreindu tímabili. Árið 2017 varði hver ferðamaður stærstum hluta heildarneyslu sinnar í gistiþjónustu eða um 23 prósent, 19 prósent neyslunnar fór í ferðaskrifstofur og 17 prósent í flugfargjöld.
Í skýrslunni segir að þetta bendi til þess að fleiri ferðaþjónustuaðilar komi vörum eða þjónustu sinni á framfæri í gegnum ferðaskrifstofur og/eða að ferðamenn kjósi í auknum mæli að versla vörur og þjónustu í gegnum ferðaskrifstofur.
Fimmfalt fleiri ferðaskrifstofur
Samhliða einu mesta vaxtarskeiði íslenskrar ferðaþjónustu fjölgaði fyrirtækjum í ferðaþjónustu gífurlega. Þeim fjölgaði um rúmlega 160 prósent á einum áratug, árið 2007 voru þau 1,336 talsins en árið 2017 3.477 talsins.
Þá voru ferðaskrifstofur alls 68 talsins árið 2007 hér á landi en árið 2017 voru þær orðnar 308 talsins eða nærri fimmfalt fleiri. Þetta kemur fram í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn um þróun ferðmálaþjónustu á Alþingi í fyrra. Þá vinna 13 prósent starfsmanna í ferðaþjónustu á ferðaskrifstofum, sem ferðaskipuleggjendur og bókunarþjónustu.
Virðisaukaskyld velta ferðaskrifstofa eykst
Í fyrrgreindri skýrslu Íslandsbanka má sjá að tekjur flugfélaga í íslenskri ferðaþjónustu námu 179 milljörðum króna árið og verður því um 42 prósent af heildartekjum ferðaþjónustunnar til hjá flugfélögum. Næst á eftir koma svo gistiþjónustuaðilar, með 81 milljarða króna eða alls 19 prósent af tekjum greinarinnar og ferðaskrifstofur með 72 milljarða króna eða 16 prósent af tekjum greinarinnar. Þó bera að nefna að starfsemi ferðaskrifstofa felst í því að selja vörur og þjónustu annarra ferðaþjónustufyrirtækja og renna tekjur ferðaskrifstofa því að mestu leyti til annarra fyrirtækja í
Í nýjustu útgáfu Hagstofunnar á skammtímahagvísum í ferðaþjónustu kemur fram að á fyrstu tveimur mánuðum ársins jókst virðisaukaskyld velta hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum um 12 prósent á milli ára. Auk þess má sjá að ef borin eru saman tímabilið mars til febrúar 2017 við sama tímabilið árið eftir þá var alls 11 prósent aukning á milli ára í virðisaukaskyldri veltu hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum. Það er talsvert meiri aukning en í öðrum ferðaþjónusturekstri, í farþegaflutningum með flugi var 2 prósent aukning milli ára, í rekstrri gististaða var 3 prósent aukning en veltan hjá bílaleigum jókst um 1 prósent.
Mesta fækkun farþega milli mánaða í 20 ár
Allt útlit er fyrir að á þessu ári muni í fyrsta sinn frá árinu 2011 draga úr fjölda ferðamanna til Íslands. Í apríl fækkaði erlendum ferðamönnum um 19 prósent en þá komu rúmlega 106 þúsund ferðamenn til landsins samanborið við 131 þúsund í apríl 2018. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er þetta mesta fækkun erlendra farþega milli sömu mánaða í tvo áratugi, eða svo langt sem gögn Hagstofu ná.
Umferð í gegnum Keflavíkuflugvöll í apríl 2019 dróst einnig verulega saman. Heildarfarþegahreyfingar drógust saman um 27 prósent á milli ára, voru tæplega 475 þúsund í síðasliðnum apríl en 650 þúsund í apríl 2018. Heildarflughreyfingar, flugtök og lendingar, voru tæplega 7 þúsund í síðasta mánuði á meðan þær voru um 9.300 í apríl 2018. Þær drógust því saman um 25 prósent á milli ára og eru sambærilegar því sem þær voru í apríl 2017 þegar þær voru um 6.800.