Liðsmenn Hatara veifuðu Palestínufánum þegar sjónvarpsvélar beindust að íslenska hópnum eftir að stig Íslands höfðu verið lesin upp í Eurovison-keppninni í gærkvöldi. Stuttu eftir að myndunum hafði verið sjónvarpað um alla Evrópu mættu öryggisverðir og heimtuðu að Hatari afhenti borðana. Uppátækið hefur vakið mikla athygli og hefur bæði verið fordæmt og lofað.
Hatari hafi snert hjörtu allra Palestínumanna
Miri Regev, menningarmálaráðherra í Ísrael, sagði við fjölmiðla í dag að hún teldi uppátækið hafa verið mistök af hálfu Hatara og bætti við að pólitík og menningu ætti ekki að blanda saman. Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva hafa jafnframt fordæmt uppátæki Hatara og segja það brot á reglum keppninnar.
Þá hafa tæplega 13.000 manns skrifað undir áskorun um að Ísland verði útilokað frá þátttöku í Eurovision á næsta ári. Undirskriftasöfnunin hófst skömmu eftir að keppnin lauk. „Við undirrituð krefjumst þess að Íslandi verði meinað að taka þátt í Eurovision á næsta ári eftir að hafa sýnt Ísrael svo megna og opinbera fyrirlitningu,“ segir í áskoruninni.
Mustafa Barghouti, læknir og fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Palestínu, hafði hins vegar samband við liðsmenn Hatara í dag og þakkaði þeim fyrir að hafa fyrir að hafa sýnt Palestínu samstöðu í Eurovison. Barghouti hefur rekið hjálparsamtök í Palestínu í áratugi og hefur meðal annars verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels.
Í samtali við Stundina í dag segir Barghouti að hann telji að Hatari hafi snert hjörtu allra Palestínumanna. „Ég þakkaði þeim fyrir þrennt. Í fyrsta lagi fyrir að hafa dregið fram palestínska fánann. Eins og þú kannski veist er prinsippafstaða okkar sú að tónlistarfólk eigi að sniðganga Evrópsku söngvakeppina. En við skiljum sjónarmið Hatara um að ef þeir hefðu ekki sniðgengið keppnina hefði einfaldlega einhver annar flytjandi tekið þátt fyrir hönd Íslands í staðinn. Þeir gerðu það sem þeir lofuðu, að draga fram fánann og þessi samstöðuyfirlýsing þeirra hefur vakið athygli um allan heim. Þetta gerðu þeir þótt þeir vissu að þeim gæti verið refsað fyrir það,“ sagði Barghoutti í samtali við Stundina.
Gáfu lítið fyrir samstöðuyfirlýsingu Hatara
Palestínsk samtökin PACBI sem beita sér fyrir sniðgöngu á Ísraelsríki gefa hins vegar lítið fyrir uppátæki Hatara í gær. Í yfrlýsingunni frá samtökunum segir að samtökin hafni uppátæki Hatara en þau höfðu áður hvatt Hatara til að draga sig úr keppninni. Í færslu samtakanna á Twitter frá því apríl segir: „Palestínumenn hvetja alla keppendur í Eurovision til að draga sig úr keppninni í aðskilnaðarborginni Tel Aviv, þetta á sérstaklega við um íslensku keppendurna Hatara, sem hafa lýst yfir stuðningi við réttindi Palestínumanna.“
Í yfirlýsingunni segir að listamenn sem rjúfi sniðgönguna og spili í Tel Aviv þrátt fyrir áskoranir Palestínumanna geti ekki bætt upp fyrir skaðann sem barátta Palestínumanna fyrir mannréttindum verði fyrir. „Þó við kunnum að meta stuðning, þá getum við ekki þegið hann þegar honum fylgir gjörningur sem bersýnilega grefur undan friðsamri mannréttindabaráttu okkar. Besta yfirlýsingin um samstöðu er að hætta við að koma fram í aðskilnaðarríkinu Ísrael.“
Samtökin PACBI eru stofnaðilar að BDS-hreyfingunni sem beitir sér fyrir margvíslegri sniðgöngu á Ísrael með það að markmiði að binda enda á hersetu Ísrael, koma á fullu jafnrétti Palestínumanna með ísraelskan ríkisborgararétt og rétti palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna. Samtökin segja Ísraelsríki reka aðskilnaðarstefnu sem birtist meðal annars í aðskilnaðarmúrnum á Vesturbakkanum.
Palestinian civil society overwhelmingly rejects fig-leaf gestures of solidarity from international artists crossing our peaceful picket line #Hatari #BoycottEurovision2019 #ESC2019 #Eurovision2019 #esf19 #EurovisionSongContest #DareToDreamTogether #DareToDream #Eurovision pic.twitter.com/IP5MaTfQrQ
— PACBI (@PACBI) May 18, 2019