Tæplega þrjú hundruð ungmenni birtu auglýsingu í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni, „Ekki spila með framtíð okkar. Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“
Í fréttatilkynningu frá forsvarsmanni hópsins segir að umræðan um EES-samninginn undanfarin misseri hafi verið knúin áfram af síendurteknum rangfærslum og ósannindum, nú síðast um þriðja orkupakkann. Vegna þessa hafi ungt fólk úr öllum áttum séð ástæðu til þess árétta þessi skilaboð.
EES-samningurinn fært Íslendingum ótal tækifæri
Auglýsing hópsins er kostuð af fólkinu á myndunum, 272 ungmenna Í tilkynningunni segir fólkið í auglýsingunni sé allt undir fertugu og spannar megnið af hinu pólitíska litrófi, bæði flokksbundið og óflokksbundið. Fólkið sé af öllum kynjum, með ólíkan bakgrunn, búsett erlendis og víðs vegar um landið. Í auglýsingunni má meðal annars finna Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúi Pírati, og Egil Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokkinn
Í tilkynningunni er ungt fólk sagt hafa sofið á verðinum í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit og við kjör Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, afleiðingarnar séu öllum ljósar. Hópurinn bendir á EES samningurinn hafi fært Íslendingum hluti sem í dag þykja sjálfsagðir. „EES samningurinn og annað alþjóðlegt samstarf hefur fært Íslendingum lífsgæði ótal tækifæri sem væri óhugsandi að vera án. Tækifæri eins og frelsi til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur í Evrópu og lengi mætti telja. Þetta eru hlutir sem við öll njótum góðs af og lítum í dag á sem sjálfsagðan hluta af okkar dagsdaglega lífi. Því segjum við einum rómi: Ekki spila með framtíð okkar.“
Seinni umræðunni um orkupakkann haldið áfram í dag
Efnt var til mótmælafundar á Austurvelli um helgina þar sem andstæðingar þriðja orkupakkans hvöttu stjórnvöld til þess að að hafna orkupakkanum. Talið er að um þrjú hundruð manns hafi tekið þátt en mótmælendur kröfðust meðal annars þess að haldið yrði þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Á mótmælunum komu meðal annars fram Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, og þingmennirnir Ólafur Ísleifsson, Inga Sæland.
Seinni umræðu um þingsályktunartillögu vegna þriðja orkupakkans verður haldið áfram á Alþingi í dag. Þann 15. maí síðastliðinn stóð umræðan um þriðja orkupakkann á Alþingi frá klukkan 15:48 til 6:18 næsta morgun. Þingmenn Miðflokksins voru áberandi í umræðunni og mæltu mjög gegn samþykkt þingsályktunartillögu um að staðfesta þriðja orkupakkann.
Fimm þingmenn eru á mælendaskrá Alþingis vegna umræðunnar um orkupakkann í dag, allir úr Miðflokknum.