Marel stefnir á almennt hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam á öðrum ársfjórðungi 2019, til viðbótar við skráningu sína í Nasdaq kauphöllina á Íslandi. Í útboðinu verða boðnir til sölu allt að 100 milljónir nýrra hluta, sem samsvara um 15 prósent af útgefnu hluthafi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marel.
Langstærsta félagið á markaði
Marel var stofnað árið 1983 og er í dag leiðandi á sviði hátæknibúnaðar til vinnslu matvæla, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað. Yfir 6.000 manns starfa hjá félaginu í yfir 30 löndum og 6 heimsálfum. Heildartekjur Marel á árinu 2018 námu 1,2 milljörðum evra.
Frá skráningu félagsins í Kauphöllina á Íslandi árið 1992 hafa heildartekjur þess vaxið að meðaltali um 22 prósent á ári, bæði með innri og ytri vexti. Marel er langstærsta félagið á markaði hérlendis en stærð þess nemur um 36 prósent af markaðsverðmæti allra skráðra félaga í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi.
Hluthafar Marel voru 2.464 talsins þann 17. maí 2019, samkvæmt hluthafaskrá. Tíu stærstu hluthafarnir fara með 66,5 prósent hlut en þar af eiga íslenskir lífeyrissjóðir 38,4 prósent hlut í félaginu. Kjölfestuhluthafinn, Eyrir Invest hf. er eigandi 28,4 prósent útgefinna bréfa í Marel en þar á eftir koma Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,9 prósent og Gildi 5,7 próent. Þá átti þann 17. maí síðastliðinn Marel 1,7 prósent eigin hluti. Frjálst flot hluta í Marel var 71,6 prósent
Eykur sýnileika og styrkir fjárhagsskipan félagsins
Í tilkynningu félagsins segir að tvíhliða skráning hlutabréfa félagsins í Euronet kauphöllina í Amsterdam sé eðlilegt næsta skref í frekari framþróun og vaxtarstefnu félagsin. Þá segir að skráning í Hollandi muni auka sýnileika Marel og aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta. Útboð á nýju hlutafé muni einnig styrkja fjárhagsskipan félagsins og verða hlutirnir skráðir í gjaldmiðli sem styður betur við stefnu félagsins um framtíðarvöxt og möguleg fyrirtækjakaup.
Hlutafjárútboðið samanstendur af almennu hlutafjárútboði í Hollandi og á Íslandi og lokuðu hlutafjárútboði til ákveðinna fagfjárfesta í öðrum lögsögum, þar með talið lokuðu útboði í Bandaríkjunum til aðila sem eru hæfir fagfjárfestar og lokað útboð til fagfjárfesta utan Bandaríkjanna.
Fyrirhugað hlutafjárútboð samanstendur af nýju hlutafé, allt að 100 milljónum nýrra hluta, sem samsvarar um 15 prósent af útgefnu hlutafé, þar með talið er valréttur til að mæta umframeftirspurn. Gert er ráð fyrir að skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam eigi sér stað á öðrum ársfjórðungi 2019.
Styðja við markmiðið um 12 prósent árlegan meðalvöxt
Marel hefur lýst því yfir að félagið stefni að 12 prósent meðalvexti á ári á tímabilinu 2017 til 2026, þar af um 4 til 6 prósent með innri vexti og um 5 til 7 prósent í gegnum fyrirtækjakaup. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að markaður með búnað til matvælavinnslu fyrir kjúkling, kjöt og fisk muni vaxa um 4 til 6 prósent árlega.
„Þetta er stór dagur fyrir Marel, þar sem við tilkynnum um fyrirætlanir okkar um hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam. Við störfum á ákaflega spennandi vaxtarmarkaði, þar sem aukin fólksfjölgun, stækkun millistéttarinnar og stækkun borgarsamfélaga drífur áfram eftirspurn eftir hágæða matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Marel er staðsett í miðju þessara drifkrafta og í samstarfi við viðskiptavini höldum við áfram að kynna hátæknivörur, hugbúnað og þjónustu sem eykur afköst og nýtingu og minnkar sóun. Skráningin í Euronext í Amsterdam mun styðja við markmið okkar um 12% árlegan meðalvöxt tekna á tímabilinu 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samvinnu við lykilsamstarfsaðila ásamt kaupum á fyrirtækjum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.