Hæstiréttur féllst í morgun á kröfu saksóknara um að vísa frá endurupptökubeiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar í einum hluta af Baugs-málinu. Dómurinn segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Rúv greinir frá þessu.
Dæmdir tvisvar fyrir sama brot
Jón Ásgeir og Tryggvi voru á sínum tíma dæmdir í skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt fyrir meiriháttar brot á skattalögum. Þeir fóru með málið til Mannréttindadómstól Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu, þann 18. maí 2017, að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur.
Þeir kærðu dóminn til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið. Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt.
Dómurinn taldi að ekki væri heimild í lögum fyrir endurupptöku
Endurupptökunefnd féllst síðan á Jón Ásgeirs og Tryggva um endurupptöku málsins þar sem hún taldi að miklir gallar hefðu verið á meðferð málsins. Bæði Jón Ásgeir og Tryggvi kröfðust þess fyrir Hæstarétti að ákæruliðum gegn þeim yrði vísað frá en til vara að þeir yrðu sýknaðir.
Hæstiréttur segir að fyrir liggi að óhlutdrægur og óháður dómstóll hafi komist að niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva og sakfellt þá fyrir stórfelld brot gegn skattalögum. Þá segir Hæstiréttur að þótt íslenskir dómstólar líti til dóma mannréttindadómstólsins og mannréttindasáttmálans þegar reyni á ákvæði hans þá sé það hlutverk Alþingis að gera þær breytingar á lögum sem þarf til að virða „þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum.“
Dómurinn telur því ekki heimild í lögum fyrir endurupptöku í kjölfar þess að Mannréttindadómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu.
Innheimtuaðgerðum frestað vegna mannréttindadómstólsins
Rúv greinir frá því að fyrir Hæstarétt hafi verið lagt fram bréf sýslumannsins á Norðurlandi vestra sem er dagsett 30. apríl. Þar kemur fram að Jón Ásgeir hafi á árunum 2014 til 2017 greitt 39,3 milljónir af 62 milljóna sekt sinni en Tryggvi hafi greitt 8,9 milljónir af 32 milljóna sekt. Þá kemur fram í bréfi sýslumannsins að innheimtuaðgerðum hafi verið frestað þegar ljóst var að niðurstöðu væri að vænta frá mannréttindadómstólnum í Strassborg.