Jarðvarmi slhf, félag í eigu 14 íslenska lífeyrissjóð, hefur keypt hlut Innergex í HS Orku á 299,9 milljónir dali, eða 37,3 milljarða króna á núvirði. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Innergex til kanadísku kauphallarinnar í dag.
Innergex hefur þar með selt sænsku félagið Magma Sweden til Jarðvarma en Magma á 53,9 prósent hlut í félaginu. Með kaupunum mun Jarðvarmi verða eigandi allra hluta í HS Orku, eina íslenska orkufyrirtækinu sem er í einkaeigu eftir að hafa gengið inn í sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK fyrr á þessu ári.
Viðbúið er þó að Jarðvarmi selji hluta þess sem félagið hefur keypt til breska félagsins Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum. Samkvæmt heimildum Kjarnans stendur til að ljúka þeirri vinnu fyrir lok maímánaðar og er talið líklegt að um helmingur hlutafjár í HS Orku verði áframseldur til Ancala.
Því neitunarvaldi hefur Jarðvarmi beitt áður, þegar fjárfestingarsjóðurinn Blackstone hugðist kaupa 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á 95 milljónir evra, um 12,9 milljarða króna á núvirði, sumarið 2017. Sú ákvörðun var ekki vinsæl á meðal stjórnenda meirihlutaeigenda HS Orku á þeim tíma.
Aðkomu Beaty fer að ljúka
Með sölunni á Magma Energy Sweden til Jarðvarma lýkur áratugalangri, og um tíma afar umdeildri, aðkomu Kanadamannsins Ross Beaty og fyrirtækja sem hann hefur komið að að þessu þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.
Beaty, sem hefur verið stjórnarformaður HS Orku árum saman, leiddi uppkaup sænska skúffufyrirtækisins Magma Energy Sweden á hlutum í HS Orku á árunum 2009 og 2010. Þrátt fyrir mikinn pólitískan mótþróa, og umræður um hvort ríkið gæti gengið inn í kaupin eða komið í veg fyrir þau á annan hátt, þá náði hann að kaupa alls 98,53 prósent hlut í orkufyrirtækinu á alls um 33 milljarða króna.
Miðað við verðmiðann sem er á sölunni til Jarðvarma þá er heildarvirði HS Orku nú um 69 milljarðar króna. Fyrirtækið hefur því reynst ágætis fjárfesting fyrir þá sem keyptu það á sínum tíma.
Fyrirtæki Beaty fór síðan í gegnum sameiningar og endaði undir hatti Innergex, sem gekk frá sölunni á hlut sínum í HS Orku í dag.