Mynd: 123rf.com

Lífeyrissjóðirnir í lykilstöðu í HS Orku og Reykjanesbær fær milljarða

Viðbúið er að Reykjanesbær fái á fjórða milljarð króna í sinn hlut vegna sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku. Samlagsfélagið Jarðvarmi, í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, verður með tögl og hagldir í eina íslenska orkufyrirtækinu í einkaeigu eftir þær vendingar sem orðið hafa í eigendahópnum undanfarið.

Í ágúst 2012 seldi Reykja­nes­bær skulda­bréf sem sveit­ar­fé­lagið eign­að­ist við sölu á hlut þess í HS Orku til Geysis Green Energy. Kaup­and­inn var Fag­fjár­fest­inga­sjóð­ur­inn ORK sem rek­inn var af Virð­ingu, sem síðar gekk í gegnum nokkrar sam­ein­ingar og er nú hluti af Kviku banka. Sjóð­ur­inn var fjár­magn­aður af líf­eyr­is­sjóðum og fag­fjár­fest­um.

Í frétt á vef Reykja­nes­bæjar á þessum tíma var sagt að sölu­verðið væri 6,3 millj­arðar króna. Það átti að skipt­ast þannig að ORK greiddi strax 3,5 millj­­arða króna í pen­ingum og um 500 millj­­ónir króna í mark­aðs­skulda­bréf­­um. Auk þess kom fram í sam­komu­lagi milli kaup­anda og selj­anda að loka­greiðsla ætti að fara fram í októ­ber 2017, þegar skulda­bréfið væri á gjald­daga. Sú loka­greiðsla var bundin ýmsu, meðal ann­ars þróun álverðs, og talan 6,3 millj­arðar króna því fjarri því meit­luð í stein.  Í lok árs 2014 var skulda­bréfið til að mynda metið á um 5,8 millj­arða króna sam­kvæmt árs­reikn­ingi ORK.

Til­boð upp á tæpa 5,4 millj­arða króna

Í nóv­em­ber 2015 bauðst  Alt­erra Power, sem áður hafði heitið Magma Energy sem var útgef­andi skulda­bréfs­ins, til að kaupa það til baka með afföll­um, eða á 5.350 millj­ónir króna.

Til­boðið var langt undir fram­reikn­uðu virði skulda­bréfs­ins í árs­reikn­ingi Reykja­nes­bæj­ar, sem var 6,7 til 7,7 millj­arðar króna.

Þótt ORK ætti skulda­bréfið þá þurfti sjóð­ur­inn að óska eftir afstöðu Reykja­­nes­bæjar til til­­­boðs­ins áður en því er ­tek­ið. Af söl­unni varð á end­anum ekki. Sem betur fer fyrir Reykja­nes­bæ.

Þegar komið var að gjald­daga skulda­bréfs­ins, í októ­ber 2017, lá fyrir að útgef­and­inn vildi frekar láta veðið sem sett var fyrir því. Gengið var að því eftir það átti fjár­fest­ing­ar­sjóð­ur­inn ORK 12,7 pró­sent í HS Orku.

Verk­efnið virk­aði þannig að eig­endur ORK voru í raun kröfu­hafar en Reykja­nes­bær hag­hafi þess. Ef það gekk illa myndi sveit­ar­fé­lagið fá lítið til við­bótar við það sem þegar hafði verið greitt út, en ef vel gengi, og verð á hlutum í HS Orku myndi hækka, þá myndi Reykja­nes­bær hagn­ast veru­lega.

Selt á 8,8 millj­arða króna

Seint á árinu 2018 barst til­boð í hlut ORK í HS Orku. Þar var á ferð­inni svis­s­­neska fjár­­­fest­inga­­fé­lags­ins Dis­r­uptive Capi­tal Renewa­ble Energy AG. Móð­ur­­­fé­lag DC Renewa­ble Energy AG, Dis­r­uptive Capi­tal Fin­ance er skráð í kaup­höll­ina í Sviss. Eig­andi félags­ins er Bret­inn Edmund Tru­ell sem hefur unnið lengi að því að koma á sæstreng milli Íslands og Bret­lands. Til­boð hans hljóm­aði upp þá rúma níu millj­arða króna, en hluti kaup­verðs­ins átti hins vegar að vera árang­urstengd­ur.

Salan var hins vegar ekki frá­gengin þótt til­boð hefði komið fram. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans átti Tru­ell í erf­ið­leikum með að klára fjár­mögnun á kaup­un­um.

Jarð­varmi, félag í eigu 14 íslenskra líf­eyr­is­sjóða, steig þá inn og bauð í ORK-hlut­inn. Frá þeim kaup­samn­ingi var gengið í byrjun apr­íl.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að kaup­verðið hafi verið 8,8 millj­arðar króna. Reykja­nes­bær getur því átt von á að fá rúm­lega fjóra millj­arða króna til við­bótar við það sem sveit­ar­fé­lagið fékk þegar það seldi skulda­bréfið upp­haf­lega.

Í ljósi þess að Reykja­nes­bær er eitt skuld­settasta sveit­ar­fé­lag lands­ins – skuldir sam­stæð­unnar voru um 45 millj­arðar króna í fyrra – og sam­fé­lagið þar mun verða fyrir umtals­verðum áhrifum vegna gjald­þrots WOW air og sam­dráttar í ferða­þjón­ustu, þá munu þeir fjár­munir sem falla til vegna sölu á hlut ORK, koma sér afar vel. Þeim verður öllum ráð­stafað til nið­ur­greiðslu skulda.

Jarð­varmi gengur inn í fleiri til­boð

Þetta var ekki einu við­skiptin sem Jarð­varmi hefur gengið inn í á und­an­förnum vik­um. Í lok mars var greint frá því að sjóður í stýr­ingu hjá Macqu­arie Infrastruct­ure and Real Assets (MIRA) hefði und­ir­­ritað kaup­­samn­ing á 53,9 pró­­sent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orku­­fyr­ir­tæk­inu HS Orku á 304,8 millj­­ónir dala, tæp­lega 37 millj­­arða króna. Magma er í 100 pró­sent eigu kanadíska fyr­ir­tæk­is­ins Inn­ergex Renewa­ble Energy sem keypti móð­ur­fé­lag þess, Alt­erra Power, snemma árs 2018.

Jarð­varmi hefur ákveðið að ganga inn í þessi kaup líka, í sam­floti við breskt fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki, Ancala Partners.

Nú stendur yfir vinna við að ákveða hversu stóran hlut þeir líf­eyr­is­sjóðir sem standa að Jarð­varma vilja taka af þeim hlut og hversu mikið mun fara til Ancala Partners, sem sér­hæfir sig í inn­viða­fjár­fest­ingum í Evr­ópu og er að stóru leyti fjár­magnað af breskum líf­eyr­is­sjóð­um.

Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þeirri vinnu á að ljúka fyrir maí­lok og við­mæl­endur Kjarn­ans telja að eign­ar­hald HS Orku verði þá lík­lega þannig að Jarð­varmi muni eiga um helm­ing og Ancala Partners um helm­ing.

En Jarð­varmi hefur samt sem áður tögl og hagldir í þróun HS Orku. Þegar félagið keypti sig upp­haf­lega inn í fyr­ir­tækið þá tryggði það sé ríka minni­hluta­vernd og form­lega aðkomu að öllum meiri­háttar ákvörð­unum á vegum HS Orku. Það sam­komu­lag felur því í sér neit­un­ar­vald gagn­vart öllum stórum ákvörð­un­um. 

Því neit­un­ar­valdi hefur Jarð­varmi beitt áður, þegar fjár­fest­ing­ar­sjóð­ur­inn Black­sto­ne hugð­ist kaupa 30 pró­sent hlut HS Orku í Bláa lón­inu á 95 millj­ónir evra, um 12,9 millj­arða króna á núvirði, sum­arið 2017. Sú ákvörðun var ekki vin­sæl á meðal stjórn­enda meiri­hluta­eig­enda HS Orku á þeim tíma.

Góður rekstur og falin verð­mæti

Rekst­ur HS Orku virð­ist vera í mjög góðu standi um þessar mund­ir. Í árs­lok 2017 átti fyr­ir­tækið eigið fé upp á 35,5 millj­arða króna og skil­aði hagn­aði upp á 4,6 millj­arða króna. Þar voru eign­ir HS Orku metnar á 48,4 millj­arða króna en flestir sér­fræð­ingar eru sam­mála um að þær séu veru­lega van­metn­ar. Í þeim sama árs­reikn­ingi var nefni­lega 30 pró­sent eign­ar­hlutur fyr­ir­tæk­is­ins í Bláa lón­inu bók­færður á 2,7 millj­arð króna, sem er lík­ast til umtals­vert undir mark­aðsvirði í ljósi þess að Bláa lónið var verð­lagt á um 50 millj­arða króna alls í við­skiptum sem áttu sér stað tengt því í lok árs í fyrra.

Í fjár­festa­kynn­ingu sem not­ast var við vegna söl­unnar á ráð­andi hlut til MIRA, sem nú liggur fyrir að ekk­ert verður af, og bar nafnið „Project Thor“, sagði að áætl­aður EBIT­DA-hagn­aður HS Orku (hagn­aður fyrir fjár­magnsliði, afskriftir og skatta) á árinu 2019 væri 31 milljón dala, eða um 3,7 millj­arðar króna. Þar er hins vegar einnig gert ráð fyrir að EBIT­DA-hagn­aður HS Orku muni nán­ast tvö­fald­ast á árinu 2023 og verða um 60 millj­ónir dala, eða um 7,2 millj­arðar króna.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar