Mynd: 123rf.com

Lífeyrissjóðirnir í lykilstöðu í HS Orku og Reykjanesbær fær milljarða

Viðbúið er að Reykjanesbær fái á fjórða milljarð króna í sinn hlut vegna sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku. Samlagsfélagið Jarðvarmi, í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, verður með tögl og hagldir í eina íslenska orkufyrirtækinu í einkaeigu eftir þær vendingar sem orðið hafa í eigendahópnum undanfarið.

Í ágúst 2012 seldi Reykja­nes­bær skulda­bréf sem sveit­ar­fé­lagið eign­að­ist við sölu á hlut þess í HS Orku til Geysis Green Energy. Kaup­and­inn var Fag­fjár­fest­inga­sjóð­ur­inn ORK sem rek­inn var af Virð­ingu, sem síðar gekk í gegnum nokkrar sam­ein­ingar og er nú hluti af Kviku banka. Sjóð­ur­inn var fjár­magn­aður af líf­eyr­is­sjóðum og fag­fjár­fest­um.

Í frétt á vef Reykja­nes­bæjar á þessum tíma var sagt að sölu­verðið væri 6,3 millj­arðar króna. Það átti að skipt­ast þannig að ORK greiddi strax 3,5 millj­­arða króna í pen­ingum og um 500 millj­­ónir króna í mark­aðs­skulda­bréf­­um. Auk þess kom fram í sam­komu­lagi milli kaup­anda og selj­anda að loka­greiðsla ætti að fara fram í októ­ber 2017, þegar skulda­bréfið væri á gjald­daga. Sú loka­greiðsla var bundin ýmsu, meðal ann­ars þróun álverðs, og talan 6,3 millj­arðar króna því fjarri því meit­luð í stein.  Í lok árs 2014 var skulda­bréfið til að mynda metið á um 5,8 millj­arða króna sam­kvæmt árs­reikn­ingi ORK.

Til­boð upp á tæpa 5,4 millj­arða króna

Í nóv­em­ber 2015 bauðst  Alt­erra Power, sem áður hafði heitið Magma Energy sem var útgef­andi skulda­bréfs­ins, til að kaupa það til baka með afföll­um, eða á 5.350 millj­ónir króna.

Til­boðið var langt undir fram­reikn­uðu virði skulda­bréfs­ins í árs­reikn­ingi Reykja­nes­bæj­ar, sem var 6,7 til 7,7 millj­arðar króna.

Þótt ORK ætti skulda­bréfið þá þurfti sjóð­ur­inn að óska eftir afstöðu Reykja­­nes­bæjar til til­­­boðs­ins áður en því er ­tek­ið. Af söl­unni varð á end­anum ekki. Sem betur fer fyrir Reykja­nes­bæ.

Þegar komið var að gjald­daga skulda­bréfs­ins, í októ­ber 2017, lá fyrir að útgef­and­inn vildi frekar láta veðið sem sett var fyrir því. Gengið var að því eftir það átti fjár­fest­ing­ar­sjóð­ur­inn ORK 12,7 pró­sent í HS Orku.

Verk­efnið virk­aði þannig að eig­endur ORK voru í raun kröfu­hafar en Reykja­nes­bær hag­hafi þess. Ef það gekk illa myndi sveit­ar­fé­lagið fá lítið til við­bótar við það sem þegar hafði verið greitt út, en ef vel gengi, og verð á hlutum í HS Orku myndi hækka, þá myndi Reykja­nes­bær hagn­ast veru­lega.

Selt á 8,8 millj­arða króna

Seint á árinu 2018 barst til­boð í hlut ORK í HS Orku. Þar var á ferð­inni svis­s­­neska fjár­­­fest­inga­­fé­lags­ins Dis­r­uptive Capi­tal Renewa­ble Energy AG. Móð­ur­­­fé­lag DC Renewa­ble Energy AG, Dis­r­uptive Capi­tal Fin­ance er skráð í kaup­höll­ina í Sviss. Eig­andi félags­ins er Bret­inn Edmund Tru­ell sem hefur unnið lengi að því að koma á sæstreng milli Íslands og Bret­lands. Til­boð hans hljóm­aði upp þá rúma níu millj­arða króna, en hluti kaup­verðs­ins átti hins vegar að vera árang­urstengd­ur.

Salan var hins vegar ekki frá­gengin þótt til­boð hefði komið fram. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans átti Tru­ell í erf­ið­leikum með að klára fjár­mögnun á kaup­un­um.

Jarð­varmi, félag í eigu 14 íslenskra líf­eyr­is­sjóða, steig þá inn og bauð í ORK-hlut­inn. Frá þeim kaup­samn­ingi var gengið í byrjun apr­íl.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að kaup­verðið hafi verið 8,8 millj­arðar króna. Reykja­nes­bær getur því átt von á að fá rúm­lega fjóra millj­arða króna til við­bótar við það sem sveit­ar­fé­lagið fékk þegar það seldi skulda­bréfið upp­haf­lega.

Í ljósi þess að Reykja­nes­bær er eitt skuld­settasta sveit­ar­fé­lag lands­ins – skuldir sam­stæð­unnar voru um 45 millj­arðar króna í fyrra – og sam­fé­lagið þar mun verða fyrir umtals­verðum áhrifum vegna gjald­þrots WOW air og sam­dráttar í ferða­þjón­ustu, þá munu þeir fjár­munir sem falla til vegna sölu á hlut ORK, koma sér afar vel. Þeim verður öllum ráð­stafað til nið­ur­greiðslu skulda.

Jarð­varmi gengur inn í fleiri til­boð

Þetta var ekki einu við­skiptin sem Jarð­varmi hefur gengið inn í á und­an­förnum vik­um. Í lok mars var greint frá því að sjóður í stýr­ingu hjá Macqu­arie Infrastruct­ure and Real Assets (MIRA) hefði und­ir­­ritað kaup­­samn­ing á 53,9 pró­­sent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orku­­fyr­ir­tæk­inu HS Orku á 304,8 millj­­ónir dala, tæp­lega 37 millj­­arða króna. Magma er í 100 pró­sent eigu kanadíska fyr­ir­tæk­is­ins Inn­ergex Renewa­ble Energy sem keypti móð­ur­fé­lag þess, Alt­erra Power, snemma árs 2018.

Jarð­varmi hefur ákveðið að ganga inn í þessi kaup líka, í sam­floti við breskt fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki, Ancala Partners.

Nú stendur yfir vinna við að ákveða hversu stóran hlut þeir líf­eyr­is­sjóðir sem standa að Jarð­varma vilja taka af þeim hlut og hversu mikið mun fara til Ancala Partners, sem sér­hæfir sig í inn­viða­fjár­fest­ingum í Evr­ópu og er að stóru leyti fjár­magnað af breskum líf­eyr­is­sjóð­um.

Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þeirri vinnu á að ljúka fyrir maí­lok og við­mæl­endur Kjarn­ans telja að eign­ar­hald HS Orku verði þá lík­lega þannig að Jarð­varmi muni eiga um helm­ing og Ancala Partners um helm­ing.

En Jarð­varmi hefur samt sem áður tögl og hagldir í þróun HS Orku. Þegar félagið keypti sig upp­haf­lega inn í fyr­ir­tækið þá tryggði það sé ríka minni­hluta­vernd og form­lega aðkomu að öllum meiri­háttar ákvörð­unum á vegum HS Orku. Það sam­komu­lag felur því í sér neit­un­ar­vald gagn­vart öllum stórum ákvörð­un­um. 

Því neit­un­ar­valdi hefur Jarð­varmi beitt áður, þegar fjár­fest­ing­ar­sjóð­ur­inn Black­sto­ne hugð­ist kaupa 30 pró­sent hlut HS Orku í Bláa lón­inu á 95 millj­ónir evra, um 12,9 millj­arða króna á núvirði, sum­arið 2017. Sú ákvörðun var ekki vin­sæl á meðal stjórn­enda meiri­hluta­eig­enda HS Orku á þeim tíma.

Góður rekstur og falin verð­mæti

Rekst­ur HS Orku virð­ist vera í mjög góðu standi um þessar mund­ir. Í árs­lok 2017 átti fyr­ir­tækið eigið fé upp á 35,5 millj­arða króna og skil­aði hagn­aði upp á 4,6 millj­arða króna. Þar voru eign­ir HS Orku metnar á 48,4 millj­arða króna en flestir sér­fræð­ingar eru sam­mála um að þær séu veru­lega van­metn­ar. Í þeim sama árs­reikn­ingi var nefni­lega 30 pró­sent eign­ar­hlutur fyr­ir­tæk­is­ins í Bláa lón­inu bók­færður á 2,7 millj­arð króna, sem er lík­ast til umtals­vert undir mark­aðsvirði í ljósi þess að Bláa lónið var verð­lagt á um 50 millj­arða króna alls í við­skiptum sem áttu sér stað tengt því í lok árs í fyrra.

Í fjár­festa­kynn­ingu sem not­ast var við vegna söl­unnar á ráð­andi hlut til MIRA, sem nú liggur fyrir að ekk­ert verður af, og bar nafnið „Project Thor“, sagði að áætl­aður EBIT­DA-hagn­aður HS Orku (hagn­aður fyrir fjár­magnsliði, afskriftir og skatta) á árinu 2019 væri 31 milljón dala, eða um 3,7 millj­arðar króna. Þar er hins vegar einnig gert ráð fyrir að EBIT­DA-hagn­aður HS Orku muni nán­ast tvö­fald­ast á árinu 2023 og verða um 60 millj­ónir dala, eða um 7,2 millj­arðar króna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar