Bandaríkjaþing hefur samþykkt að styrkja bændur um 16 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um tvö þúsund milljörðum króna, vegna skaðlegra áhrifa af tollastríði Bandaríkjanna og Kína.
Áhrifin af því hafa stigmagnast að undanförnu og leitt til þess að fjárfestar óttast nú að heimsbúskapurinn gæti verið á leið inn í meiri hægagang.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að fjárfestar óttist að allir muni tapa á tollastríðinu, bæði Bandaríkin og Kína.
America could hasten the end of its tech dominance if it unleashes its power on China clumsily https://t.co/S5JrgmYYlr
— The Economist (@TheEconomist) May 23, 2019
Hefur þessi ótti meðal annars smitast út á markaðina, en hlutabréfaverð hefur fallið síðustu daga.
Þá hefur olíuverð lækkað mikið. Í dag lækkaði það um 5,5 prósent, sé mið tekið af verðinu á tunnunni af hráolíu. Tunnan kostar nú um 58 Bandaríkjadali en fyrir þremur vikum kostaði hún 70 Bandaríkjadali.
Bændur í Bandaríkjunum hafa fengið að finna fyrir neikvæðum áhrifum af tollastríðinu. Vegna hærri tolla inn á markaðssvæði í Kína, hefur illa gengið að koma framleiðslu þeirra á markaði á góðum verðum. Þá hefur verð á ýmsum tækjum sem þeir nýta í framleiðslu hækkað verulega, vegna hærri tolla á innflutning til Bandaríkjanna, meðal annars á málmum.