Theresa May mun láta af embætti forsætisráðherra Bretlands og hætta sem leiðtogi Íhaldsflokksins þann 7. júní næstkomandi.
Þetta tilkynnti hún í beinni sjónvarpsútsendingu við embættisbústaðinn í Downingstræti laust eftir klukkan níu í morgun.
Afsögnin hefur legið í loftinu og bjuggust fréttaskýrendur þar í landi við því að hún myndi stíga til hliðar eftir að illa gekk fyrir hana að útfæra Brexit en málið hefur reynst henni gríðarlega erfitt.
Í frétt The Guardian kemur fram að forsætisráðherrann muni halda áfram að búa í forsætisráðherrabústaðnum við Downingsstræti og taka á móti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en hann er væntanlegur í heimsókn. Einnig mun May vera til staðar þegar úrslit úr kosningum til Evrópuþingsins verða kunngjörð næstkomandi fimmtudag.