Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu bókfærðu virði hlutarins.
Í nýjasta ársreikningi HS Orku, fyrir árið 2018, er hluturinn bókfærður á 3,3 milljarða króna og hafði þá hækkað um 600 milljónir króna milli ára.
Blávarmi keypti hins vegar hlutinn á 15 milljarða króna. Miðað við það er virði Bláa Lónsins 50 milljarðar króna.
Salan á hlutnum í Bláa Lóninu fór fram eftir að Jarðvarmi slhf., félag í eigu sömu lífeyrissjóða, hafði eignast allt hlutafé í HS Orku í síðustu viku. Eftir að 30 prósent hluturinn í Bláa Lóninu var seldur til Blávarma seldi Jarðvarmi síðan helmingin í HS Orku til breska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum.
Tilboði hafnað 2017
Sumarið 2017 reyndi HS Orka, með stuðningi Ross Beaty stjórnarformanns og Innergex, að selja 30 prósent hlutinn í Bláa Lóninu til bandaríska fjárfestingafélagsins Blackstone.
Tilboð Blackstone hljóðaði þá upp á 95 milljónir evra, jafnvirði 13,1 milljarða króna á núverandi gengi.
Ekkert varð hins vegar af sölunni eftir að stjórn Jarðvarma ákvað að beita neitunarvaldi sínu, á grundvelli hluthafasamkomulags um minnihlutavernd, og hafna tilboði Blackstone. Sú ákvörðun vakti ekki mikla lukku á meðal erlendra eigenda HS Orku.