Forsætisráðuneytið hefur ekki fengið skilagrein frá nefnd sem skipuð var til að leiða fyrir hönd stjórnvalda sáttaviðræður við fyrrum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar í fyrra. Ráðuneytið lítur því hvorki svo á að sáttaviðræðum sé formlega lokið né hlutverki sett ríkislögmanns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Náði ekki samkomulagi við sáttanefndina
Greint var frá því fyrr í dag að Guðjón Skarphéðinsson, einn þeirra sem sýknaður var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, hafi ekki náð samkomulagi við sáttanefnd stjórnvalda varðandi miska- og skaðabætur. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að fyrst ríkið virðist ekki vilja ná sáttum þá séu næstu skref að undirbúa málsókn.
Ragnar krafðist miskabóta upp á rúman milljarðs fyrir hönd skjólstæðings síns en Ragnar segir að sáttanefndin hafi verið að ræða tölur á bilinu 120 til 150 milljónir króna. Hann tók það þó fram að ekkert formlegt tilboð hafi komið frá sáttanefndinni.
Í Fréttablaðinu í dag var greint frá því að Andri Árnason, settur ríkislögmaður í málinu, sé hins vegar ekki búin að taka formlega afstöðu til kröfu Guðjóns en þar sem ekki var gengið að henni við borð sáttanefndar þá segir blaðið að ólíklegt sé að henni verði annað en hafnað.
Breið sátt eða viðræður við hvern og einn
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að þar sem ráðuneytið hafi ekki fengið skilagrein frá sáttanefndinni þá líti ráðuneytið svo á að sáttaviðræðum sé ekki formlega lokið né hlutverki setts ríkislögmanns. Í tilkynningunni er tekið fram að nefndinni og ríkislögmanni var falið að ljúka málinu annað hvort á grundvelli breiðrar sáttar eða viðræðna við hvern og einn sem sýknaðir voru eða aðstandendur þeirra.
Ekki hefur komið fram hvort að niðurstaða sé komin í mál hinna málsaðilanna, Tryggva Rúnar Leifsson, Sævar Ciesielski, Albert Klan Skaftason og Kristján Viðar Júlíusson, sem einnig voru sýknaður í Hæstarétti síðasta haust.