Isavia tilkynnti á fundi með starfsmönnum félagsins í dag að 19 starfsmönnum hefur verið sagt um hjá félaginu og til viðbótar býðst 15 starfsmönnum lægra starfshlutfall. Um er að ræða starfsmenn sem starfa meðal annars við öryggisleit og farþegaþjónustu. Í tilkynningu frá félaginu segir að uppsagnirnar komI aðallega til vegna brotthvarfs WOW air í mars síðastliðnum.
Kyrrsetning á Max vélum Boeing einnig haft áhrif
Í tilkynningunni segir að áður hafi verið dregið úr sumarráðningum hjá Isavia ásamt því að fjölmörgum fyrirhuguðum ráðningum hefur verið frestað og breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi vaktakerfa. Þessar aðgerðir hafa þegar náð til ýmissa starfsstöðva Isavia, þar á meðal til skrifstofustarfa.
Umsvif í þjónustu vegna millilandslandsflugs er minni en áætlanir Isavia gerðu ráð fyrir vegna gjaldþrot WOW air fyrr á árinu en einnig hefur breytt flugáætlun Icelandair í kjölfar kyrrsetningar á Max vélum Boeing haft áhrif. Því segir félagið að óhjákvæmilegt sé að grípa til þessara aðgerða.
Laun forstjóra félagsins hækkað um rúm 43 prósent
Í mars greindi Kjarninn frá því að heildarlaun Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, hafi hækkað um 43,3 prósent frá því að ákvörðun launa var færð frá kjararáði árið 2017 til stjórnar fyrirtækisins á ný.
Mánaðarlaun forstjórans hækkuði úr 1.748.000 krónum á mánuði í nóvember 2017 í 2.504.884 í maí 2018 eða um rúm 750 þúsund á tæpu ári. Þetta kom fram í svari Isavia við fyrirspurn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig fyrirtækið hefði brugðist við tilmælum sem beint var til fyrirtækja í ríkiseigu í janúar 2017 er varðar launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra.