Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirra 200 milljóna króna sem settar voru inn í rekstur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, í janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í uppfærðum eigendalista á vef Fjölmiðlanefndar.
Alls lögðu þessar tvær blokkir til 160 milljónir króna af 200 milljónum króna þegar hlutafé í Þórsmörk ehf., eiganda Árvakurs, var aukið þann 21. janúar síðastliðinn, eða 80 prósent fjármagnsins.
Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 hafa þeir lagt félaginu til rúmlega 1,6 milljarð króna. Þar af nemur framlagt hlutafé KS um 324 milljónum króna og framlagt hlutafé tveggja félaga sem tengjast Ísfélaginu um 484 milljónum króna.
Eignarhlutur Eyþórs minnkar
Kjarninn greindi frá því 18. apríl síðastliðinn að KS hefði verið á meðal þeirra sem lögðu Þórsmörk til nýtt rekstrarfé, í gegnum dótturfélag sitt Íslenskar sjávarafurðir, og ætti að minnsta kosti 20 prósent hlut í félaginu. Það gerðist í kjölfar þess að viðtal við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra, hafði birst í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður þar sem hann opinberaði að KS ætti um fimmtungshlut. Samkvæmt skráningu sem birt var á heimasíðu fjölmiðlanefndar sagði hins vegar að KS ætti í gegnum dótturfélagið Íslenskar sjávarafurðir ehf., 15,84 prósent hlut í Þórsmörk.
KS lagði alls til 100 milljónir króna af þeim 200 milljónum króna sem Þórsmörk fékk frá hluthöfum sínum í janúar, eða helminginn.
Aðrir sem lögðu Þórsmörk til fé voru m.a. félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja sem eiga enn jafn hátt hlutfall og áður í Þórsmörk eftir hlutafjáraukninguna, eða tæplega 30 prósent hlut. Alls settu tvö félög, Ísfélagið og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, samanlagt um 60 milljónir króna inn í Þórsmörk í janúar. Þær 40 milljónir króna sem upp á vantaði dreifðust á nokkra smærri hluthafa en enginn nýr hluthafi bættist í hópinn við hlutafjáraukninguna.
Flestir minni eigendur Þórsmerkur eru tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum.
Tilkynnt um breytingar mörgum mánuðum eftir aukningu
Samkvæmt lögum um fjölmiðla á að tilkynna fjölmiðlanefnd um allar eigendabreytingar á fjölmiðlum innan tveggja virkra daga frá því að kaupsamningur er gerður. Upplýsingar um eignarhald á Þórsmörk voru uppfærðar á heimasíðu nefndarinnar í gær, 28. maí 2019. Þar áður höfðu þær ekki verið uppfærðar frá 13. september 2017.
Í ljósi þess að hlutafjáraukning í Árvakri var skráð 21. janúar síðastliðinn þá hefur var ekki farið eftir ofangreindum lögum um skráningu á eignarhaldi, enda má ekki skrá nýtt hlutafé nema að það hafi þegar verið greitt.
Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og útvarpsstöðvarinnar K100. Félagið er eina eign Þórsmerkur. Árvakur hefur glímt við mikinn hallarekstur á undanförnum árum og hluthafar þess hafa ítrekað þurft að leggja útgáfunni til fé.
Tap félagsins á árinu 2017 var til að mynda 284 milljónir króna. Það var fimmfalt meira tap en árið 2016. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 og fram til loka árs 2017 tapaði félagið tæplega 1,8 milljörðum króna. Ársreikningur fyrir árið 2018 hefur ekki verið birtur.
Eignarhald Þórsmerkur nú er eftirfarandi:
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 20,05 prósent
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 20,00 prósent
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson, 13,43 prósent
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37 prósent
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14 prósent
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson, 3,59 prósent
- Stálskip ehf., forsv.maður Halldór Kristjánsson, 3,08 prósent
- Brekkuhvarf ehf., forsv.maður Ásgeir Bolli Kristinsson, 2,05 prósent
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,54 prósent
- Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., forsv.maður Einar Valur Kristjánsson, 1,30 prósent