Ný lán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til sjóðsfélaga sinna drógust saman um 7,1 milljarða króna á síðasta ári. Á árinu 2017 lánað sjóðurinn sjóðsfélögum sínum alls 33,5 milljarða króna í nýjar lánveitingar en í fyrra nam heildarupphæð slíkra lánveitinga 26,4 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í upplýsingum sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur veitt Kjarnanum.
Líklegt er að samdrátturinn skýrist að hluta af þeirri ákvörðun sjóðsins að lækka veðhlutfall lána sinna úr 75 í 70 prósent vorið 2017. Á sama tíma breytti sjóðurinn útlánareglum sínum þannig að ekki var lengur miðað við matsverð fasteignar við útreikning veðláns, heldur fasteignamat, nema þegar um lánveitingu í tengslum við fasteignaviðskipta. Þetta þýddi að ekki var lengur hægt að endurfjármagna lán hjá sjóðnum miðað við markaðsvirði heldur einungis miðað við fasteignamat, sem er oftast nær umtalsvert lægra, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu.
Breyting á eftirspurn eftir lánaflokkum
Í tölum frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna kemur einnig fram að umtalsverð breyting hefur orðið á þeim lánaflokkum sem viðskiptavinir sjóðsins eru að velja sér.
Árið 2017 voru til að mynda verðtryggð lán með föstum vöxtum vinsælasti kosturinn, en 44 prósent allra nýrra veittra lána á því ári voru þess eðlis. Á sama tíma voru óverðtryggð lán 38 prósent og verðtryggð lán á breytilegum vöxtum einungis 18 prósent.
Í fyrra varð algjör viðsnúningur á þessu. Þá voru verðtryggð lán á breytilegum vöxtum langvinsælasti lánaflokkurinn, en 42 prósent allra nýrra lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2018 voru slík lán. Lán á föstum verðtryggðum vöxtum drógust mjög saman og voru einungis 33 prósent nýrra veittra lána. Óverðtryggðu lánin nánast helminguðust í krónum talið og voru 25 prósent veittra lána.
Hækka vexti á breytilegum verðtryggðum lánum
Kjarninn greindi frá því á mánudaginn 27. maí að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði ákveðið að hækka breytilega vexti verðtryggðra lána til sjóðsfélaga frá og með 1. ágúst næstkomandi úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent.
Vextir sjóðsins nú eru þeir lægstu sem standa íbúðakaupendum á Íslandi til boða. Eftir breytinguna munu bæði Frjálsi lífeyrissjóðurinn (2,15 prósent) og Almenni lífeyrissjóðurinn (2,18 prósent) bjóða sínum félögum upp á lægri breytileg vaxtakjör á verðtryggðum lánum.
Í staðinn fyrir að ávöxtunarkrafa ákveðins skuldabréfaflokks stýri því hverjir vextirnir eru mun stjórn sjóðsins ákveða þá. Frá þessu er greint í frétt á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í síðustu viku. Þar kom einnig fram að vextir sjóðsins á föstum verðtryggðum vöxtum frá og með föstudeginum 24. maí úr 3,6 prósentum í 3,4 prósent. Vextir á slíkum lánum haldast óbreyttir út lánstímann.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt að ákvörðun lífeyrissjóðsins um að hækka vextina sé blaut tuska framan í verkalýðshreyfinguna. Hann hefur þegar kallað eftir skriflegum skýringum vegna málsins og segir von á formlegum viðbrögðum í þessari viku. „Þau viðbrögð munu ekki fara framhjá neinum,“ segir Ragnar.