„Ég held að Miðflokksmenn séu fyrst og fremst hafi metið það þannig að með þessari vegferð geti þeir nálgast meiri stuðning úti í samfélaginu með hálfsannleik og með því að vera að sá allskonar efasemdarfræjum, að mínu mati fullkomlega með hætti sem er innistæðulaus. Og er náttúrulega flokknum til vansa og umræðunni.“
Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni þar sem þeir ræddu málþóf Miðflokksins vegna þriðja orkupakkans.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Umræðu um þriðja orkupakkann var frestað í gærmorgun um óákveðinn tíma til að gera framgöngu annarra mála á Alþingi gerlega. Miðflokkurinn hafði þá staðið fyrir málþófi í umræðu um þriðja orkupakkann dögum saman, eða alls íu 134 klukkustundir og átta mínútur. Umræðan um málið er nú klukkustund styttri en umræðan um Icesave og er orðin hálfum öðrum sólarhring lengri en umræðan um EES-samninginn. Umræðan um EES-samninginn var lengi langlengsta umræðan á Alþingi og sú fyrsta sem náði því að standa yfir í hundrað klukkustundir. Þar sem umræðu um þriðja orkupakkann er ekki lokið má telja líklegt að hún slái met Icesave-umræðunnar þegar hún hefst að nýju.
Málið sé fullrætt. „Það sé ekkert nýtt að koma. Það liggur algjörlega fyrir að það er mjög ríflegur meirihluti í þinginu fyrir málinu. Þarna er einn flokkur sem hertekur þingið.“
Hann vill að flokkar landsins taki sig saman og komist að samkomulagi um breytingar á þingsköpum sem takmarki það að hægt sé að taka þingið í herkví með þessum hætti. Afleiðingin nú verði sú að þingið muni fjalla um ýmis nauðsynleg mál af miklu meiri hraða en annars hefði verið gert, vegna þess að búið sé að sóa miklu tíma í málþóf.