Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda en aðgerðaáætlun þess efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í áætluninni má meðal annars finna tillögu um að auka sjálfsafgreiðslu á vefnum Ísland.is þannig að almenningur geti nálgast þjónustu hins opinbera á einum stað. Auk þess stefna stjórnvöld að því að ríkið muni taka að sér útgáfu á rafrænum skilríkjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Vilja að Ísland verði fremst í heimi í rafrænni stjórnsýslu
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að stafrænt Ísland verði að taka mið af þeirri þróun sem er að eiga sér stað með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar og þeim tækifærum sem skapast til að auka gagnsæi innan stjórnsýslunnar með öflugri upplýsingatækni sem samkvæmt forsætisráðuneytinu er forsenda þess að hægt sé að efla markvisst traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.
Enn fremur segir í tilkynningunni að innviðir séu góðir hér á landi og því tækifæri til staðar til að hrinda af stað umbótaverkefnum sem munu skila bættri þjónustu til skemmri og lengri tíma fyrir almenning og fyrirtæki. Með aðgerðaáætluninni sem samþykkt var í morgun vilja stjórnvöld leggja grunn að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu.
Nálgast þjónustu hins opinbera á einum stað
Eitt þeirra umbótarverkefna, sem finna má í áætluninni, er að einstaklingar hafi beinan aðgang að persónulegum gögnum sem hið opinbera ræður yfir. Það verður gert með því að efla vefinn Ísland.is en þar á almenningur að geta nálgast þjónustu hins opinbera á einum stað og hafa beinan aðgang að persónulegum gögnum.
Auk þess stefna stjórnvöld að því að ríkið muni taka að sér útgáfu á rafrænum skilríkjum. Jafnframt verða gagnasöfn efld og opnuð almenningi og vísindasamfélagi.
Stafræn þjónustu á Íslandi slökust allra Norðurlanda
Í skýrslu sem unnin er af hag- og félagsmáladeild Sameinuðu þjóðanna sem birt var í ágúst í fyrra kom fram að Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að stafrænni þjónustu hins opinbera.
Skýrslan skoðar stafræna stjórnsýslu í 193 löndum, en markmið hennar er að meta getu landanna til að takast á við alheimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna árið 2030. Þetta er í tíunda skiptið sem samtökin birta viðlíka skýrslu og er hún byggð á nokkrum vísitölum sem bera saman þróun landanna í ýmsum málaflokkum stafrænnar stjórnsýslu.
Samkvæmt skýrslunni er Ísland í nítjánda sæti þegar að það kemur að rafrænni stjórnsýslu og eftir sem áður var Ísland þar slakast Norðurlandanna. Samkvæmt skýrslunni voru helstu þættirnir sem drógu Ísland upp í vísitölunni var helst há einkunn á gæði mannauðsins, en aðrir þættir skoruðu ekki jafnhátt.