Bára Halldórsdóttir mun eyða svokölluðum Klausturupptökum með viðhöfn annað kvöld á skemmtistaðnum Gauknum, þriðjudaginn 4. júní. Frá þessu er greint í viðburði sem kallast Báramótabrennan á Facebook. Herlegheitin hefjast upp úr klukkan 21:00.
Greint var frá því í fjölmiðlum þann 22. maí síðastliðinn að stjórn Persónuverndar hefði ekki fallist á kröfu þingmanna Miðflokksins um að Bára Halldórsdóttir yrði sektuð vegna hljóðritunar hennar á samskiptum þeirra sem fram fóru á veitingastaðnum Klaustri. Hins vegar taldist upptakan ólögleg samkvæmt persónuverndarlögum og bæri Báru að eyða henni og senda Persónuvernd staðfestingu á að það hefði verið gert eigi síðar en 5. janúar næstkomandi.
Samkvæmt viðburðinum á Facebook munu lögfræðingar Báru sjá um að skrásetja viðburðinn en Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, mun flytja opnunarávarp fyrir hönd stuðningshópsins Takk Bára.
Þá verða valdir kaflar upptökunnar kvaddir sérstaklega og upptökum svo eytt með viðhöfn. Í kjölfarið er fólki frjálst að grípa í míkrófóninn, fyrst til að segja eitthvað uppbyggilegt og svo breytist Gaukurinn í allsherjar karaoke-partý.
Posted by Margrét Erla Maack - Miss Mokki on Monday, June 3, 2019