Ný markaðsherferð á vegum á vegum Inspired by Iceland, Umhverfisstofu og hagaðila hvetur ferðamenn til þess að draga úr plastnotkun með því að drekka kranavatn. Kranavatnið er markaðssett sem ókeypis lúxusvara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.
Markmiðið með herferðinni er að draga úr plastnotkun ferðamanna ásamt því að varpa ljósi á gæði íslensk vatns “sem er eitt hreinasta og bragðbesta kranavatn í heimi” að því er segir í tilkynningunni.
Nú hefur myndband sem hluti af herferðinni verið birt á Youtube-síðu Inspired by Iceland.
Í tilkynningunni er vísað í könnun ferðamanna í Evrópu og Norður-Ameríku sem sýnir 65 prósent ferðamanna auka plastflöskunotkun á ferðalögum.
Ráðherrar ánægðir með herferðina
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir samkvæmt tilkynningunni að ánægjulegt sé að vekja athygli á íslensku vatni og aðgengi að því, því margir ferðamenn þekki ekki gæði íslensks kranavatns.
Enn fremur segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kranavatnskerfið vera eitt af skrefunum til þess að stuðla að ábyrgri hegðun ferðamanna á Íslandi og víðar.