Um 2400 ungmenni, þ.e. um sex prósent ungmenna á Íslandi, á aldrinum 16-24 ára voru hvorki í námi, vinnu né starfsþjálfun árið 2018. Hlutfallið er lágt samanborið við önnur Evrópuríki. Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar.
Bent er á í tilkynningunni að Alþjóðlega vinnumarkaðsstofnunin (ILO) telji hópinn vera í sérstakri hættu á félagslegri einangrun og skorti á efnislegum gæðum þar sem ungmennin hljóti ekki menntun eða þjálfum jafnframt sem þau afli sér ekki tekna.
Hlutfallið með því lægsta í Evrópu
Einungis tvö Evrópuríki hafa lægra hlutfall ungmenna sem ekki eru í námi, vinnu eða starfsþjálfun, þ.e. Noregur og Holland. Annað er uppi á teningnum fyrir Tyrkland, Norður-Makedóníu og Ítalíu. Hlutfallið í Tyrklandi nær 24,4 prósent ungmenna, Norður-Makedóníu 24,1 prósent ungmenna og Ítalíu tæp 20 prósent ungmenna.
Frá árinu 2013 hefur bilið á milli karla og kvenna án vinnu, náms eða starfsþjálfun á Íslandi aukist og stóð í 6,4 prósent meðal karla en 8,5 prósent meðal kvenna árið 2018. Munurinn á milli kynja var minnkaði hins vegar á árunum 2003-2008. Á vef Hagstofunnar er munurinn skýrður á þann veg að konur á aldrinum 20-34 ára séu frekar utan vinnumarkaðar en ungir karlar. Mögulega sé það vegna þess að ungar konur taki frekar fæðingarorlof áður en þær byrji í starfi, þær séu frekar öryrkjar, tímabundið ófærar til vinnu og líklegri til að vera heimavinnandi. Engu að síður er kynjamunurinn minni en í öðrum ríkjum Evrópusambandsins þar sem meðaltalið er 8,7 prósentustiga munur á milli kynja.