Hraðhleðslustöðvum við þjóðveginn verður fjölgað verulega og blásið verður til átaks með ferðaþjónustunni til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum. Þetta kom fram á blaðamannafundi þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar, þeirra Guðmundar Inga Guðbrandssonar, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur og Sigurðar Inga Jóhannssonar, þar sem kynnt voru næstu skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi.
Í tilkynningu frá ráðuneytunum þremur kemur fram að verkefnin byggi á tillögum starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipuðu í byrjun árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um loftslagsmál og orkuskipti.
Jafnframt var tilkynnt um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019 til 2020 en samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að verja 1,5 milljarði króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.
Formaður starfshópsins var Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs en auk hans sátu í hópnum fulltrúar úr atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Hópnum var einungis ætlað að taka fyrir orkuskipti í samgöngum en ekki breyttar ferðavenjur fólks og eflingu almenningssamgangna en unnið er að því annars staðar í stjórnkerfinu.
Á kynningunni kom fram að þriðjungur þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda komi frá vegasamgöngum. Stærsta einstaka aðgerðin sem mögulegt væri að ráðast í til að mæta skuldbindingum Íslands sé því að draga úr þessari losun – með breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í vegasamgöngum. Rafvæðing fólksbílaflotans muni skila mestu í orkuskiptunum en gert er ráð fyrir að hún geti skilað allt að 250.000 tonna árlegum samdrætti í losun.
Kalla eftir umsóknum um fjárfestingarstyrki
Helstu aðgerðir varðandi orkuskipti eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er um að ræða hindrunarlausar ferðir rafbíla milli landshluta en rafbílum fjölgar hratt hér á landi og er Ísland er nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla af fjölda nýskráðra bifreiða. „Mikilvægt er að koma í veg fyrir að flöskuhálsar myndist á fjölförnum stöðum og tryggja hindrunarlausar ferðir milli landshluta. Kallað verður eftir umsóknum um fjárfestingarstyrki til uppbyggingar hraðhleðslustöðva á lykilstöðum við þjóðvegi landsins, með áherslu á næstu kynslóð hleðslustöðva sem bjóða upp á mun styttri hleðslutíma en núverandi stöðvar gera,“ segir í tilkynningu ráðherranna.
Til úthlutunar til þessa verkefnis eru samtals 200 milljónir króna og hefur Orkusjóði verið falið að sjá um úthlutun styrkja til átaksverkefnisins. Vegna mótframlags umsækjenda má áætla að heildarupphæð uppbyggingarinnar verði að lágmarki 400 milljónir króna.
Fjölga hleðslumöguleikum við gististaði
Í öðru lagi er talað um hleðslumöguleika við gististaði og eftirmarkað rafbíla en ráðist verður í átaksverkefni um að fjölga hleðslumöguleikum við gististaði vítt og breitt um landið. Tilgangurinn er að liðka fyrir orkuskiptum hjá bílaleigum en áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans hér á landi eru veruleg þar sem bílaleigubílar eru tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi.
Í tilkynningunni er fjallað um áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þau eru tvíþætt. Annars vegar vegna aksturs ferðamanna sem er að minnsta kosti fjórðungur af öllum einkaakstri á landinu og hins vegar þegar fyrrverandi bílaleigubílar verða að heimilisbílum landsmanna á eftirmarkaði.
Gististöðum og hótelum um land allt býðst að sækja um fjárfestingarstyrki í gegnum Orkusjóð til að setja upp hleðslustöðvar svo gestir geti hlaðið þar rafbíla yfir nótt. Til úthlutunar eru samtals 50 milljónir króna. Vegna mótframlags umsækjenda má áætla að heildarfjárhæðin verði að lágmarki 100 milljónir króna og hleðslustöðvum við gististaði fjölgi um allt að 500 vegna þessa. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar.
Í þriðja lagi er um að ræða almennar aðgerðir og aðra orkugjafa en hafinn er undirbúningur í félagsmálaráðuneytinu að því að breyta lögum um fjöleignarhús með það að leiðarljósi að liðka fyrir rafbílavæðingu.
Verðum að gjörbreyta ferðavenjum
Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir við tilefnið að Íslendingar verði að gjörbreyta ferðavenjum og skipta út mengandi jarðefnaeldsneyti fyrir umhverfisvæna orkugjafa. „Ísland er nú í öðru sæti hvað varðar nýskráningar rafbíla og þær aðgerðir sem hér eru kynntar skipta verulegu máli til að tryggja að orkuskipti hér á landi gangi hratt og örugglega fyrir sig. Við höfum allt sem þarf til að vera í fararbroddi í heiminum í orkuskiptum í samgöngum,“ segir hann.
„Í dag kynnum við aðgerðir um áframhaldandi átak í orkuskiptum og markvissa uppbyggingu innviða. Meðal annars er lögð sérstök áhersla á orkuskipti í ferðaþjónustu í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar. Í því felast fjölmörg tækifæri og við eigum að stuðla að því að ferðamenn geti ferðast um landið með umhverfisvænum hætti,“ segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, telur að með rafbílavæðingu nýti Íslendingar hreina og ódýra innlenda orku í stað mengandi innflutts eldsneytis. „Það skiptir máli að fólki standi til boða að reka og hlaða rafbíl, óháð búsetu. Ég fagna markvissri uppbyggingu um allt land, sem styður við þá þróun,“ segir hann.