Ökutæki sem notast við blandaða orkugjafa auk rafmagnsbíla eru um 6,7 prósent ökutækja á skrá og í umferð. Þetta kemur fram í skýrslu Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar 2017 sem lögð var fyrir Alþingi í maí 2019.
Fjöldi ökutækja á skrá og í umferð jókst úr 199.865 árið 2016 í 222.248 árið 2018. Þar af fjölgaði rafmagnsbílum úr 1052 í 2748 á árunum 2016 til 2018. Vissulega er það hröð aukning, en þó stendur fjöldi rafmagnsbíla einungis í um 1,2 prósent allra ökutækja á skrá og í umferð.
Fjöldi ökutækja sem hafa blandaðan orkugjafa jókst mikið á tveimur árum
Ef litið er til ökutækja með blandaðan orkugjafa, svo sem bensín/dísel og metan, bensín/dísel og rafmagnstengil og svo bensín/dísel og rafmagn, stóð fjöldi þeirra ökutækja á skrá og í umferð árið 2016 í 4.323 talsins.
Ef litið er hins vegar til ökutækja sem hafa blandaða orkugjafa kemur í ljós að árið 2018 eru ökutæki með blandaðan orkugjafa 12.144. Lagt saman við ökutæki sem notast við rafmagn er fjöldinn 14.862 talsins eða um 6,7 prósent ökutækja á skrá og í umferð. Þá er ekki með talið bílar sem nýta metan, metanól eða etanól. Það er því stökk úr 4.323 árið 2016 í 14.862 árið 2018.
Ef litið er til ökutækja sem nota metan sem orkugjafa voru þau 115 talsins árið 2018 og standa þar með um það bil í stað frá árinu 2016 þegar þau voru 114 talsins.
Nýskráningar bifreiða hríðféll í hruninu en hafa nú náð nýjum hæðum. Árið 2009 voru undir 5.000 nýskráningar miðað við um 30.000 nýskráningar árið 2017.
Tíu prósent bifreiða verði knúnar af vistvænum orkugjöfum 2020
Samkvæmt skýrslunni miða markmið um orkuskipti í samgönguáætlun að því að tíu prósent bifreiða verði knúnar af vistvænum orkugjöfum árið 2020.
Í skýrslunni er borin saman þróun losunar frá samgöngum á landi og aksturs frá árunum 1990-2017. Frá árinu 2013 til 2017 fer akstur fram úr losun sem eflaust má skýra að hluta til með aukningu í blönduðum orkugjöfum ökutækja og rafmagnsbílum.
Í skýrslunni segir að áherslur til að ná markmiðum um umhverfislega sjálfbærar samgöngur verði aðgerðir og ívilnanir sem „miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.“ Stuðningur við almenningsgöngur og gerð göngu- og hjólreiðastíga í þéttbýli er einnig hluti af þeim áherslum.