Ólafur Ólafsson, einn sakborninga í Al Thani-málinu svokallaða og einn stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun, segir að niðurstaða Mannréttindadómstólsins sýni fram á að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og úrlausnar fyrir óvilhöllum dómstólum, sem sé einn af hornsteinum réttarríkisins. Frá þessu greinir hann í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í kjölfar niðurstöðunnar í morgun.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að hæstaréttardómarinn Árni Kolbeinsson hafi ekki verið óhlutdrægur í Al-Thani málinu.
„Þetta staðfestir athugasemdir sem ég hef gert við meðferð málsins á öllum stigum þess; íslenskir dómarar hafa ekki gætt að hæfi sínu og setið í dómi þar sem vafi leikur á hlutleysi þeirra. Í viðleitni til að sanna sakleysi mitt hef ég ítrekað rekist á veggi þar sem samtvinnuð hagsmunagæsla óskilgreindra afla í dómskerfinu hefur komið í veg fyrir að hægt væri að leiða hið sanna í ljós. Fegurðin við Ísland felst meðal annars í fámenninu en við þær aðstæður verður sérstaklega að gæta að hlutleysi í viðkvæmum málum vegna náinna tengsla í litlu samfélagi. Mannréttindadómstóllinn staðfestir að það er sannarlega brot á mannréttindum þegar vanhæfur dómari situr í dómi. Þetta er fullnaðarsigur,“ segir Ólafur.
Í Al Thani-málinu voru þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson ákærðir ásamt Ólafi Ólafssyni, einum stærsta eiganda bankans fyrir hrun, fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og hlutdeild í umboðssvikum.
Málinu lauk með dómi Hæstaréttar þann 12. febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir. Hreiðar Már var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 5 og hálfs árs fangelsis, Sigurður var sakfelldur samkvæmt ákæru hvað varðar markaðsmisnotkun en fyrir hlutdeild í umboðssvikum og dæmdur til 4 ára fangelsis. Ólafur var sakfelldur vegna markaðsmisnotkunar en sýknaður í ákæruliðum varðandi umboðssvik og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis og Magnús var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis.