Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt niðurstöðu vegna athugunar eftirlitsins á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá líftryggingafélögum og vátryggingarmiðlurum.
Niðurstaðan er að aðgerðir voru ekki í lagi hjá nokkrum þeirra félaga sem skoðuð voru.
Í niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins kemur fram að hjá Fjárfestingamiðlun Íslands hafi verið gerðar athugasemdir við að reglubundið eftirlit með viðskiptasambandi hafi ekki verið í fullu samræmi við ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá hafi heldur ekki verið skjalfest stefna, stýringar eða verkferlar til staðar í samræmi við áðurnefnd lög né hafi verið tilnefndur sérstakur ábyrgðarmaður í samræmi við þau.
Þá var gerð athugasemd hjá Líftryggingafélagi Íslands hf., Nýju vátryggingaþjónustunni ehf. og Tryggingamiðlun Íslands ehf. varðandi reglubundið eftirlit með viðskiptasambandi.
Fjöldi athugasemda vegna Arion banka
Þetta er önnur niðurstaðan sem Fjármálaeftirlitið birtir vegna athugunar sinnar á stöðu peningaþvættismála hjá eftirlitsskyldum fyrirtækjum á undanförnum dögum.
Athugasemdirnar voru gerðar í kjölfar þess að FME framkvæmdi athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sú athugun hófst með bréfi sem sent var til bankans 3. október 2018. Niðurstaða athugunarinnar lá fyrir í janúar 2019 og var hún byggð á gögnum og upplýsinga miðað við stöðuna eins og hún var á þeim tíma sem athugunin hófst. Niðurstaðan var ekki birt fyrr en 29. maí, að beiðni Arion banka, sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en að hún yrði gerð opinber.
Ísland fékk falleinkunn
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um slakar varnir Íslendinga gegn peningaþvætti undanfarin misseri. Í byrjun janúar greindi Kjarninn frá því að í fyrravor hafi Ísland fengið aðvörun. Annað hvort myndu stjórnvöld þar taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki.
Í úttekt samtakanna á stöðu mála Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn. Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.