Hlutur útborgaðra launa af heildarlaunum hefur lækkað hjá öllum tekjuhópum á undanförnum árum, þó mest hjá þeim tekjulægstu. Þetta birtist í skýrslu unna af Intellecon fyrir Félag atvinnurekenda sem birt var í gær. Höfundar skýrslunnar eru Gunnar Haraldsson og Kári S. Friðriksson. Skýrslan fjallaði um þróun launatengdra gjalda frá árinu 2000 til 2018.
Einungis var litið til launatengdra gjalda og frádráttarliða launa, en ekki annarra skatta, t.d. fasteignaskatts. Heldur var ekki tekið tillit til lífeyrisgreiðslna launþega og séreignarsparnaðar við vinnslu skýrslunnar.
Útborguð laun hafa lækkað mest hjá tekjulægstu
Samkvæmt skýrslunni hefur hlutur útborgaðra launa af heildarlaunum lækkað hjá öllum tekjuhópum, þó sé um mestu lækkun að ræða hjá þeim tekjulægstu. Fyrir þá tekjuhópa með lægstu tíundina hafa gjöld sem hlutfall af útborguðum launum hækkað úr 22,5 prósent í 26,5 prósent. Því sést að auknu gjöldin hafi bitnað mest á lægstu laununum.
Fyrir efstu tíundina hefur hlutfallið hækkað úr 28,8 prósentum í 32 prósent, en fyrir miðgildið hækkaði hlutfallið úr 26,3 prósentum í 29,9 prósent.
Launatengd gjöld hafa vaxið frá aldamótum
Samkvæmt skýrslunni hafa allir liðir launatengdra gjalda vaxið frá aldamótum. Launatengd gjöld hafi þannig hækkað úr því að vera 13,48 prósent af launum árið 2000 í 21,8 prósent árið 2018.
Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda kemur fram að Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segi stjórnendur hafa vaxandi áhyggjur af launatengdum kostnaði. Hann telji enn fremur að auknar hækkanir á launatengdum gjöldum komi í veg fyrir að fyrirtæki geti bætt við sig starfsfólki.