Íslenskir fjárfestar hafa lagt móðurfélagi Marriott-Edition hótels sem rís við Hörpu til mikla fjármuni undanfarin tvö ár. Heildarskuldbinding þeirra, í gegnum félagið Mandólín, jafngildir nú um 5,2 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag og kom umtalsverður hluti þess fjármagns til á síðustu tveimur árum auk þess sem hópurinn hefur skuldbundið sig til að setja 1,7 milljarða króna til viðbótar í félagið. Vegna þessa eiga íslensku fjárfestarnir – einkafjárfestar, lífeyrissjóðir og tryggingafélög – alls 66 prósent í móðurfélaginu, Cambridge Plaza Venture Company, sem stendur og áformað er að endanlegur hlutur Íslendinganna verði 70 prósent.
Frá þessu er greint i Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Átti að opna 2018
Fjármögnun á byggingu fimm stjörnu Marriott-Edition hóteli við hlið Hörpu lauk í október 2016. Þá átti hótelið að vera tilbúið til opnunar 2018. Nú hefur þeim áformum verið frestað fram á vorið 2020 hið minnsta. Áður hafði bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company, sem íslenski fjárfestirinn Eggert Þór Dagbjartsson er meðal annars hluthafi í, keypt lóðina undir hótelið af Arion banka.
Stofnað var félagið Cambridge Plaza Hotel Company ehf. sem var þá í meirihluta eigu hollenska félagsins Cambridge Netherlands Investors B.V. Eigendur þess eru Carpenter & Company. Eignarhlutur lífeyrissjóða og annarra íslenskra fjárfesta er vistaður í félaginu Mandólín ehf. Stærsti eigandi þess er SÍA III slhf., félag sem sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir, í rekstri Arion banka, rekur.
Stefnir er rekið af Arion banka sem seldi byggingarréttinn undir Marriott hótelið og er auk þess stærsti lánveitandi verkefnisins.
Milljarðakostnaður
Upphaflega lagði Carpenter & Company fram stórt eiginfjárframlag í verkefnið og átti til að mynda 61,5 prósent í verkefninu í lok árs 2016. Síðan þá hafa nýir peningar í verkefnið komið frá íslenskum fjárfestum. Markaðurinn reiknar með að eiginfjárframlag í verkefnið í heild verði um 7,4 milljarðar króna og annar kostnaður sem fellur til við það verði lánsfé, aðallega frá Arion banka.
Í Markaðnum segir að næststærstu hluthafar Mandólíns, á eftir Framtakssjóðnum SÍA III, séu félögin Snæból, í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, og Stormtré, í eigu Hreggviðs Jónssonar, aðaleiganda Veritas Capital. Snæból er einnig á meðal stærstu eigenda leigufélagsins Heimavalla. Þá á Vitinn Reykjavík, aðallega í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar, 9,4 prósenta hlut og Feier, félag hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, á 4,1 prósent.
Almenni lífeyrissjóðurinn (6,2) prósent og Festa lífeyrissjóður (5,4 prósent) eiga einnig stóran beinan hlut.