Tunnan af hráolíu hefur hríðfallið í verði í dag, og kostar nú 51 Bandaríkjadal. Fyrir rúmlega einum mánuði kostaði tunnan tæplega 70 Bandaríkjadali.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal óttast fjárfestar nú að tollastríð Bandaríkjanna og Kína sé farið að grafa undan trausti á mörkuðum, og að fjárfestar muni á næstunni halda að sér höndum, með þeim áhrifum að eftirspurn minnki og dragi úr hagvexti.
Fyrir Ísland eru það góðar fréttir að olíuverðið lækki, þar sem það dregur úr kostnaði við olíukaup heimila og fyrirtækja.
Sveiflur olíuverðs hafa verið verulegar að undanförnu, en lækkunin í dag hefur verið 3,4 prósent og er því spáð að það geti farið enn lægra niður. Á undanförnum fimm árum hefur sveiflast frá 110 Bandaríkjadölum, í lok árs 2014, og niður í 25 Bandaríkjadali um 18 mánuðum síðar. Frá þeim tíma hefur það stigið hæst í tæplega 80 Bandaríkjadali, en síðan sveiflast frá 45 til 70 Bandaríkjadali.
Þessar tíðu sveiflur hafa meðal annars verið skýrðar með því, að umræða um tollastríð og nýjar viðskiptahindranir, t.d. gagnvart Íran og Rússlandi, valdi því að meiri óvissa sé um hvernig efnahagsmálin í heiminum muni þróast á næstu misserum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagvöxtur í heiminum verði 3,3 prósent á þessu ári, en hann verður borinn uppi af miklum vexti í Asíu.
Meiri hægagangi er spáð í Evrópu, og hafa spárnar að undanförnu gert ráð fyrir að heldur meiri erfiðleikar séu í kortunum en áður var talið.
Á Íslandi hefur verið þveröfugur gangur í efnahagsmálunum. Eftir mikinn uppgang á undanförnum árum, og 4,6 prósent hagvöxt í fyrra, er því spáð að það verði 0,4 prósent samdráttur í landsframleiðslu, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.