Í maí var farþegafjöldi Icelandair 419 þúsund og jókst um 14 prósent miðað við sama mánuð í fyrra, að því er segir í tilkynningu félagsins.
Framboð var aukið um sjö prósent, en sætanýting var 82,5 prósent samanborið við 77,7 prósent í maí í fyrra.
Farþegum fjölgaði á öllum mörkuðum, þó mest á markaðinum til Íslands, um 36 þúsund, eða sem nemur 33 prósent. N-Atlantshafsmarkaðurinn var stærsti markaður félagins í mars með 50 prósent af heildarfarþegafjölda.
Aukning á þeim markaði var 4 prósent. Farþegum á heimamarkaðinum frá Íslandi fjölgaði um 15 prósent samanborið við fyrra ár.
Þá var aukning í bókunum á hótelum félagsins og herbergjanýting batnaði á milli ára.
Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum erfiðleika að undanförnu, þar sem fall WOW air í mars hefur leitt til samdráttar. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir rúmlega 10 prósent fækkun ferðamanna á þessu ári, miðað við í fyrra, en það sem af er ári er samdrátturinn 11,2 prósent.
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 126 þúsund í maímánuði eða um 39 þúsund færri en í maí árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia.
Fækkun milli ára nemur því 23,6 prósent. Sé mið tekið af þessum upplýsingum - annars vegar tilkynningu Icelandair og hins vegar Ferðamálastofu - þá virðist enn langt í að það takist að fylla skarðið hjá WOW air.
Markaðsvirði Icelandair hækkaði um 2,35 prósent í dag, og nemur nú tæplega 60 milljörðum króna.
Í lok þriðja ársfjórðungs nam eigið fé félagsins rúmlega 52 milljörðum króna.