Einangrunarhyggja í viðskiptum og aukinn efnahagslegur óstöðugleiki hægðu á hagkerfi heimsins árið 2018. Vöruviðskiptavöxtur var 3 prósent 2018 samanborið við 4,6 prósent árið 2017. Búist er við að sú þróun haldi áfram árið 2019, þar sem áætlaður vöruviðskiptavöxtur er 2,6 prósent. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. WTO).
Samkvæmt skýrslunni reynir stofnunin nú að draga úr spennu í viðskiptum. Sem dæmi hafa Bandaríkin átt í harðvígum deilum við Kína, Kanada og Mexíkó. Árið 2018 var met slegið í fjölda mála sem sett voru fyrir deilumálakerfi stofnunarinnar.
Taka þarf á málum innan stofnunarinnar
Roberto Azevêdo, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sagði brýnt að taka á málum innan stofnunarinnar, starf innan hennar gæti ekki haldið áfram líkt og ekkert hefði í skorist.
Fyrir utan aukna spennu í viðskiptum milli ríkja og einangrunarhyggju þyrfti sérstaklega að taka á niðurgreiðslum ríkja á landbúnaðar- og sjávarútvegsvörum.
Sérstök umfjöllun var árið 2018 innan stofnunarinnar um áhyggjur af afleiðingum Brexit á tolla Evrópusambandsins. Alls lýstu tólf ríki yfir sérstökum áhyggjum af afleiðingum tollanna á Bretland.