Alls hefur skráðum í þjóðkirkjuna fækkað um 567 manns á tímabilinu frá 1. desember á síðasta ári til 1. júní síðastliðins. Nú eru 232.105 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Þjóðskrár.
Um er að ræða breytingar sem eru í takt við það sem átt hefur sér stað hérlendis á undanförnum árum. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra landsmanna sem skráðir eru í þjóðkirkjuna mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt.
Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 20.964 frá ársbyrjun 2009. Á því tímabili hefur Íslendingum fjölgað en þjóðkirkjunni hefur mistekist að ná þeim fjölda til sín líka.
Hlutfallslega hefur þeim sem vilja vera í kirkjunni einnig fækkað mikið. Árið 1998 var 90 prósent þjóðarinnar í henni. Í dag eru tæp 65 prósent þjóðarinnar þar inni.
Fjölgun mest í kaþólska söfnuðinum
Á sama tímabili fjölgaði í kaþólska söfnuðinum um 375 manns eða um 2,7 prósent og í Siðmennt um 202 manns eða um 7,2 prósent. Aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu eða um 137 manns sem er 3,1 prósent.
Alls voru 25.343 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga þann 1. júní síðastliðinn og fjölgaði þeim um 580 frá 1. desember 2018 eða um 2,3 prósent.