Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri LSR – Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, stærsta og elsta lífeyrissjóðs landsins. Hún tekur síðsumars við af Hauki Hafsteinssyni sem verið hefur framkvæmdastjóri sjóðsins frá 1985 eða í 34 ár samfleytt. Frá þessu er greint í frétt LSR.
Haukur, sem stýrt hafði Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í 34 ár, ákvað að láta af störfum í sumar. Hann tilkynnti þetta á starfsmannafundi í byrjun mars. LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins og þar með stærsti fagfjárfestir í íslensku atvinnulífi. Sjóðurinn er til að mynda á meðal stærstu eigenda flestra skráðra félaga á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Harpa er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorspróf í verkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur með tímaraðagreiningu, tölfræði og vatnafræði sem sérsvið.
Í frétt LSR kemur fram að Harpa sé reyndur stjórnandi með víðtæka þekkingu á íslensku fjármálakerfi og hafi átt mikil alþjóðleg samskipti á sviði fjármála fyrir hönd Seðlabankans. Hún hafi sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs borið meginábyrgð á að meta áhættu og veikleika í fjármálakerfinu og marka stefnu um þjóðhagsvarúð og eftirlit með lausu fé. Hún ritstýri skýrslu bankans um fjármálastöðugleika.
Capacent ásamt sérstakri valnefnd innan stjórnar LSR hélt utan um ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra, stjórnin tók síðan ákvörðun um ráðninguna.