Hlutabréf í Marel voru tekin til viðskipta í Euronext-Kauphöllinni í Amsterdam í morgun. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sló í gong til að hringja inn viðskiptin. Marel verður áfram skráð í íslensku kauphöllina líka.
Í aðdraganda skráningarinnar fór fram hlutafjárútboð hjá Marel þar sem félagið seldi 100 milljón nýja hluti. Þeir hlutir jafngilda 15 prósent af heildarhlutafé Marel.
Í útboðinu var byggt á því að heildarmarkaðsviðri Marel væri 2,82 milljarðar evra, eða um 393 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Útboðsgengið var því ákveðið 3,70 evrur á hlut. Gengi bréfa í Marel hafa þegar hækkað upp í 3,97 evrur á hlut síðan að viðskipti hófust í morgun.
Stór dagur
Í tilkynningu frá Marel til íslensku kauphallarinnar segir að margföld umframeftirspurn hafi verið á útboðsgenginu bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Útboðshlutirnir voru seldir til alþjóðlegra fagfjárfesta sem og til almennra fjárfesta í Hollandi og á Íslandi.
Í tilkynningunni er haft eftir Árna Oddi að dagurinn í dag sé stór stund í sögu félagsins. „Við erum afar stolt af þeim mikla áhuga sem hlutabréfaútboðið fékk, bæði frá einstaklingum og fagfjárfestum hér heima og erlendis. Margföld eftirspurn var í útboðinu sem dreifðist vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri landa. Skráningin í Euronext kauphöllina mun styðja við næstu skref í framþróun félagsins og styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið. Sýn okkar er veröld þar sem hágæða matvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt.”