Spá Isavia gerir ráð fyrir að ferðamönnum fækki um tæplega 17 prósent á þessu ári, í samanburði við síðasta ár, en spá Seðlabanka Íslands, sem birtist í Peningamálum 22. maí, gerir ráð fyrir 10,5 prósent fækkun.
Töluverður munur er þarna á, en spá Isavia er nær því sem er í fráviksspá Seðlabankans. Eins og kunnugt er gerir Seðlabankinn ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári um 0,4 prósent, en Hagstofan spáir því að samdrátturinn verði 0,2 prósent.
Bráðabirgðartölur Hagstofu Íslands gera ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið 4,6 prósent, en sé litið til reynslunnar, þá gætu þessar tölur breyst við uppfærslu.
Það sem helst er að valda meiri kólnun í hagkerfinu er samdráttur í ferðaþjónustu, ekki síst vegna falls WOW air í mars mánuði, eftir langt dauðastríð fram eftir öllu árinu 2018.
Skarðið sem félagið skilur eftir sig hefur ekki verið fyllt. Alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélum Boeing hefur einnig sett mikið strik í reikninginn hjá Icelandair, og hefur verið dregið úr sætaframboði vegna hennar, en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir 9 Max vélum í flota félagsins á þessu ári.
Ekki liggur fyrir enn hvenær kyrrsetningunni verður aflétt, en lokaniðurstöður rannsóknar á flugslysunum í Indónesíu 29. október í fyrra, og í Eþíópíu 13. mars, eru ekki komnar fram enn. Samtals létust 346 í slysunum, allir um borð, en spjótin hafa beinst að kerfi í flugvélunum sem á að sporna gegn ofrisi.
Þrátt fyrir að Seðlabankinn spái skörpum viðsnúningi til hins verra á þessu ári þá gerir spá bankans ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði þá 2,5 prósent. Gert er ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga hægt og bítandi á næstu árum.