„Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi í blaðinu í dag þar sem umfjöllunarefnið er að uppistöðu Sjálfstæðisflokkurinn, meint fjarlægð hans frá kjósendum sínum og þriðji orkupakkinn.
Davíð er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og áratugum saman hefur verið formlegt eða óformlegt samband milli flokks og blaðs, sem oftar en ekki hafa gengið í takt. Fulltrúar Morgunblaðsins sátu til að mynda áratugum saman þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks. Þótt slitið hafi verið á þau formlegu tengsl seint á síðustu öld. Undanfarin ár hefur farið minna fyrir því og gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins orðið algengari í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins. Þar hefur málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Miðflokks hans átt meira upp á pallborðið síðustu misserin en það sem forysta Sjálfstæðisflokksins hefur haft fram að færa.
Eitt ár átaka
Í lok ágúst í fyrra var haldinn fjölmennur fundur í Valhöll á vegum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur. Sá fundur sendi frá sér ályktun þar sem skorað var „eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“ Á meðal þeirra sem sátu þann fund var Davíð Oddsson. Hann gagnrýndi svo forystu síns gamla flokks harðlega í leiðara skömmu síðar þar sem hann sagði Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, hafa látið rugla sig í ríminu. Hann sagði líka að: „Erfitt væri að ímynda sér að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni standa að þessu máli, að minnsta kosti ekki þeir fáu sem hlupust ekki undan merkjum í Icesave.“
Viðvörunarorð Davíðs náðu þó ekki eyrum þingmanna Sjálfstæðisflokks. Og undanfarið hefur forystufólk hans svarað fyrrverandi formanninum fullum hálsi þegar hann hefur gagnrýnt það. Skýrasta dæmið var í grein Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, í lok síðasta mánaðar þar sem hún svaraði gagnrýni Davíðs á stuðning hluta Sjálfstæðisflokksins við nýtt frumvarp um þungunarrof. Þar sagði hún meðal annars: „Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Því er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og leiða þær óumflýjanlegu breytingar sem framtíðin mun hafa með sér fremur en að óttast þær[...]Það er ekki hlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við gerum greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að við mótum framtíðina.“
Þá vakti ekki síður athygli að á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í lok síðasta mánaðar ákvað Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, að birta afmælisgrein í Fréttablaðinu ekki Morgunblaðinu. Sú ákvörðun þótti senda skýr skilaboð um hvernig formaðurinn teldi samband flokksins við gamla málgagnið standa.
Samræmdar árásir spunameistara
Davíð leggur út frá aðsendri grein eftir Jón Hjaltason í Reykjavíkurbréfi dagsins, en sú grein birtist í vikunni. Þar taldi höfundurinn upp allt sem Sjálfstæðisflokkur dagsins í dag væri ekki að gera en sem hann teldi að væri hin eina sanna sjálfstæðisstefna. Greinin hófst á því að höfundur sagði að nú um stundir sýndist honum „sem flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefur þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur. Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum.“ Sá formaður sem vísað er til er Davíð Oddsson. Jón sagðist hafa rætt við hundruð félagsmanna sem hugnist ekki ferðalag flokksforystunnar og ætli ekki að slást í þá för.
Í niðurlagi greinar Jóns sagði síðan: „Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum en að flokkurinn fari frá ykkur.“
Í Reykjavíkurbréfinu í dag segir Davíð: „Miðað við samræmdar árásir sem leyna sér ekki og spunameistarar halda utan um og Jón nefnir í upphafi sinnar greinar er rétt að taka fram að ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekkert heyrt um stefnu eða rökstuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Þingmenn komu ekki í Hádegismóa í kaffi og kruðerí
Síðan rekur Davíð hvernig hann telur flokkinn vera á villigötum í orkupakkamálinu. Fyrir hefði legið að síðasti landsfundur hefði lagt línuna í þessum efnum með samþykkt ályktunar sem sagði að „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“
„Nú reyna menn með einkar aumu og satt best að segja algjörlega óboðlegu yfirklóri, langt fyrir neðan sína virðingu, að láta eins og almennt hjal, sem verið hefur í almennum yfirlýsingum fundarins og einskis getið við afgreiðslu þess hafi eytt fyrrnefndri ákvörðun með göldrum,“ skrifar Davíð.
„Þessir klaufalegu kollhnísar hófust þó ekki fyrr en á lokametrunum. En sjálfstæðismenn töldu ekki ástæðu til að óttast. Landsfundarákvörðunin lá fyrir og sjálfur formaður flokksins hafði í áheyrn alþjóðar úr ræðustól Alþingis tekið af öll tvímæli vorið 2018 og aldrei gefið til kynna að hann myndi snúast í sams konar hring og hann gerði í Icesave forðum, svo flokksmenn undruðust og horfðu hryggir á. Bjarni Benediktsson sagði: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? […] Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra? […] Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál.““
Davíð segir að ári síðar hafi Bjarni hins vegar lagst þvert á sín og flokksins sjónarmið án þess að útskýra hvað hefði hrakið hann frá fyrri afstöðu. „Allan þann tíma hafði Morgunblaðið ástæðu til að vera í góðri trú. Ekki einn einasti þingmaður hefur gert sér ferð á ritstjórnarskrifstofur blaðsins þar sem þeim hefði verið tekið opnum örmum og fengið kaffi og kruðerí.“