„Ég ætlaði ekki að tjá mig um skrif Stefáns Einar enda ekki svara vert. En því miður get ég ekki lengur orða bundist enda hefur Stefán núna ítrekað farið með dylgjur og ósannindi um málefni WOW air.“
Svona hefst stöðuuppfærsla Skúla Mogensen, stofnanda, eiganda og forstjóra WOW air, sem hann setti á Facebook í dag. Tilefnið var viðtal við Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins og höfund nýrrar bókar um Skúla og WOW air sem kom nýverið út, í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Kæru vinir Ég ætlaði ekki að tjá mig um skrif Stefáns Einar enda ekki svara vert. En því miður get ég ekki lengur orða...
Posted by Skuli Mogensen on Sunday, June 9, 2019
Tölusettar rangfærslur
Alls telur Skúli til sex atriðin sem hann segir Stefán Einar fara rangt með í bók sinni.
Í fyrsta lagi segir hann það „alfarið rangt að Ben Baldanza hafi komið í stjórn WOW air fyrir tilstuðlan eða þrýsting frá Airbus eða einhverja aðra hagsmunaaðila. Staðreyndin er sú að ég hringdi í Ben skömmu eftir að hann hætti hjá Spirit Airlines og hann kom til Íslands nokkrum dögum seinna og við ákváðum að bjóða honum í stjórn WOW air sem hann þáði. Eina aðkoma Airbus var að ég hringdi í vin minn hjá Airbus sem gaf mér símanúmerið hjá Ben svo að ég gæti haft samband við hann. Að öðru leyti hafði Airbus ekkert með aðkomu Ben að félaginu að gera.“
Í öðru lagi sé það alfarið rangt að Airbus og leigusalar hafi haft miklar áhyggjur af rekstri WOW air um það leyti sem Baldanza kom í stjórn félagsins í byrjun árs 2016. „Á þessum tíma var afkoma og rekstur WOW air mjög góður og kepptust flugvélaframleiðendur og leigusalar að selja/og eða leigja WOW air fleiri flugvélar. WOW air skilaði góðum hagnaði bæði 2015 og 2016 þannig að þessar fullyrðingar standast engan veginn.“
Í þriðja lagi sé það einnig alfarið rangt að Skúli og stjórn WOW air hefðu viljandi hundsað aðvörunarorð annara í flugheiminum. „Það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á og eins og við höfum útskýrt þá liggur núna fyrir að við gerðum mikil mistök að færa okkur frá lággjaldastefnunni og að innleiða breiðþoturnar inn í leiðarkerfi okkar. Þetta reyndist dýrkeypt mistök en augljóslega töldum við þær réttar þegar þær voru teknar. Allar stærri ákvarðanir voru ræddar ítrekað á stjórnarfundum félagsins þar með talið flotamál og leiðarkerfi félagsins. Ben tók virkan þátt í þeim umræðum og var oft með gott innlegg í umræðuna en hann skilaði aldrei séráliti um nein málefni félagsins né í neinum ákvörðunum sem teknar voru á stjórnarfundum WOW air.“
Óformlegur fundur
Í fimmta lagi segir Skúli að samtal WOW air-manna við Icelandair í byrjun september í fyrra um mögulega sameiningu félaganna, sem greint er frá í bók Stefáns Einars, hafi verið á óformlegum nótum. „Ég hitti fyrst Ómar Benediktsson fyrir tilviljun á flugráðstefnu í London og við spjölluðum saman. Það var ákveðið að við myndum fá okkur kaffi þegar heim var komið með Boga Níls forstjóra Icelandair. Ég og Ragnhildur Geirsdóttir hittum svo Ómar og Boga þar sem við vorum fyrst og fremst að ræða hvort að það væri þess virði að fara í viðræður eða ekki og ef slíkar viðræður ættu að fara fram með hvaða hætti það gæti verið. Það var ákveðið að fara ekki í slíkar viðræður og því fóru aldrei formlegar viðræður í gang og því bar hvorki Icelandair né okkur skylt að upplýsa markaðinn um það á þeim tíma enda engin ástæða til.“
Í sjötta lagi fjallar Skúli um aðkomu Samgöngustofu og annarra opinberra aðila að WOW air á síðustu metrunum í líftíma félagsins. Hann segir að það virðist hafa „gleymst“ í umræðunni að WOW air hafi verið með undirritaðan skilyrtan samning við Indigo Partners um allt að níu milljarða króna fjárfestingu á þessum tíma sem hefði tryggt framtíð WOW air um ókomna tíð. „Við unnum mjög náið með Samgöngustofu og öðrum eftirlitsaðilum við að uppfylla skilyrði samningsins þar með talið að ná samkomulagi við alla skuldabréfaeigendur okkar, sem við gerðum. Ná að endursemja og skila breiðþotunum, sem við gerðum. Við unnum því í góðri trú um að við værum að uppfylla öll skilyrði samningsins og myndum klára endanlegan samning eins og til stóð 28. febrúar 2019. Allt fram að þeim tíma vorum við öll sannfærð um að WOW air myndi lifa áfram. Því miður varð það ekki raunin.“
Sagan verður sögð einn daginn
Skúli segir í lok færslunnar að hann skorist ekki undan ábyrgð sinni á falli WOW air og að hann óski þess sannarlega að hafa gert ýmislegt öðruvísi. Ég er sannfærður að það hefði verið hægt að bjarga WOW air og þeim miklu verðmætum sem þar lágu ekki síst fyrir þjóðarbúið og íslenska neytendur. Það líður vart sá klukkutími að ég hugsi ekki um WOW air, þann frábæra hóp starfsfólks sem gerði WOW að veruleika, farþega okkar og allt sem við vorum búin að byggja upp í sameiningu. Sú saga verður einn daginn sögð.“
WOW air fór í þrot 28. mars síðastliðinn. Áhrifin á íslensks efnahagslíf hafa verið mikil en ásamt loðnubresti er gjaldþrot félagsins helsta ástæða þess að nú er búist við samdrætti í íslenskum þjóðarbúskap í ár í stað áframhaldandi hagvaxtar.