Sagan af sannfærandi og hrífandi sölumanninum Skúla Mogensen

Bókadómur um WOW – Ris og fall flugfélags eftir Stefán Einar Stefánsson, sem fjallar um rússíbanareið Skúla Mogensen og fjólubláa flugfélagsins hans.

Auglýsing
Wow ris og fall

Blaða­mennsku­bækur eru sam­fé­lags­lega mik­il­væg­ar. Séu þær vel gerð­ar, og umfjöll­un­ar­efni þeirra þannig að það eigi mikið erindi við almenn­ing, þá ná þær að segja heild­ræna sögu mála sem hafa verið mikið í umræð­unni yfir lengra tíma­bil.

Stundum verða mál ein­fald­lega það stór að það nægir ekki að segja frá brota­kenndum atburðum þeirra í hefð­bundnu fjöl­miðlaformi. Það þarf að púsla sög­unni sam­an.

Eitt slíkt mál er vöxtur og brot­lend­ing flug­fé­lags­ins WOW air.

Stefán Einar Stef­áns­son, við­skipta­rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins, tók sér það verk­efni fyrir hendur og Vaka- Helga­fell gaf út bók hans, WOW – Ris og fall flug­fé­lags, fyrir skemmstu. Í bók­inni er við­skipta­saga Skúla Mog­en­sen, manns­ins sem stofn­aði og stýrði WOW air upp fjallið og fram af bjarg­brún­inni, rakin frá því að hann skipu­lagði partí í Tungl­inu og á Borg­inni með Björgólfi Thor Björg­ólfs­syni sem korn­ungur mað­ur. 

Þar er farið yfir feril Skúla sem sölu­manns körfu­bolta­mynda og hæðir og lægðir OZ-æv­in­týr­is­ins sem gerði hann á end­an­um, eftir mikla þraut­seigju, að millj­arða­mær­ingi þegar Nokia keypti fyr­ir­tækið 30. sept­em­ber 2008, viku fyrir neyð­ar­laga­setn­ingu á Íslandi.

Hrunið á Íslandi, og með­fylgj­andi geng­is­fall íslensku krón­unnar um tugi pró­senta, gerði auð Skúla í íslenskum krónum enn umfangs­meiri og hann valdi að nýta sér þá stöðu. Fyrst leiddi hann hóp sem keypti MP banka og síðar stofn­aði hann, þvert á flestar ráð­legg­ing­ar, lág­far­gjalda­flug­fé­lagið WOW air seint á árinu 2011, sem fór með him­in­skautum árin eft­ir, en háði svo afar æsi­legt og dramat­ískt dauða­stríð fyrir framan alþjóð frá sumr­inu 2018 og fram til 28. mars 2019, þegar félagið fór í þrot. 

Auglýsing
Á þessum tíma lék WOW air lyk­il­hlut­verk í því að ferja stór­auk­inn fjölda ferða­manna til Íslands, en fjöldi þeirra fór úr um hálfri milljón í 2,3 millj­ónir á örfáum árum.

Dýpkar meg­in­at­riði

Stefán Einar hefur mikla þekk­ingu á efn­inu eftir að hafa skrifað mikið um WOW air á und­an­förnum árum og á auð­velt með að raða upp sög­unni þannig að hún fljóti vel og les­endur sem hafa ekki sett sig djúpt inn í við­skipta­æv­in­týri Skúla Mog­en­sen eða rús­sí­ban­areið WOW air ættu að geta áttað sig vel á atburða­rásinni við lestur bók­ar­inn­ar.Skúli Mogensen er söguhetja bókarinnar.

Fyrir þá sem hafa fylgst vel með bar­áttu WOW air síð­ustu tvö árin er kannski ekki margt nýtt fyrir stóru mynd­ina sem fram kemur í bók­inni en Stef­áni Ein­ari hefur þó tek­ist ágæt­lega að dýpka umfjöllun um mörg meg­in­at­riði, meðal ann­ars með við­tölum við þá sem voru þar leik­end­ur. Það sem helst stendur upp úr nýjum upp­lýs­ingum snertir hið fræga skulda­bréfa­út­boð sem WOW air lok­aði í sept­em­ber 2018. Höf­undur birtir í bók­inni áður óséðar upp­lýs­ingar um hverjir tóku þátt í því útboði og sýnir fram á að stór hluti þeirra voru kröfu­hafar WOW air sem voru að breyta skamm­tíma­kröfum í lang­tíma­kröf­ur. Þ.e. aðilar sem voru í við­skiptum við WOW air sem flug­fé­lagið hafði ekki getað greitt fyr­ir.

Þessir aðilar tóku ekki neina áhættu í skulda­bréfa­út­boð­inu. Þeir keyptu skulda­bréf, greiddu fyrir þau og fjár­mun­irnir sem þeir greiddu voru not­aðir til að gera upp aðrar skuldir við sömu aðila. Þeir fjár­festar sem tóku þátt í skulda­bréfa­út­boð­inu, og lögðu til raun­veru­legt nýtt fjár­magn, vissu margir hverjir ekki af þessu.Stefán Einar Stefánsson.

Stefán Einar greinir líka ágæt­lega orsök, ástæður og afleið­ingar þess að svo fór sem fór hjá WOW air. Í flug­fé­lag­inu var allt of lítið eigið fé til að takast á við þann vöxt sem það rèð­ist í og til að takast á við óum­flýj­an­legar sveiflur í flug­heim­um, einum áhættu­samasta rekstri sem fyr­ir­finnst. Hann fer vel yfir það þegar Korta­þjón­ustan fór í raun á haus­inn haustið 2017 og  hvernig fyr­ir­greiðslu­starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins við WOW air, sem í fólst að mun stærri hluti af fyr­ir­fram­greiddum flug­far­gjöldum streymdu beint inn í kistur flug­fé­lags­ins, hætti og lausa­fjár­staðan varð þannig að hún bar ekki lengur umfang starf­sem­inn­ar.

Stefán Einar fer einnig vel yfir það hvernig hluta­fjár­aukn­ingar Skúla, sem greiddar voru með skulda­jöfnun við hann sjálfan, fólu ekki í sér neina nýja inn­spýt­ingu á fé, heldur breyt­ingu á bók­uðum þókn­ana­tekjum vegna ábyrgðar í nýtt hluta­fé.

WOW air tók ein­fald­lega of mikla áhættu og var allt of seint að bregð­ast við þegar ljóst var að í óefni stefndi. Það var aldrei raun­hæft að bjarga félag­inu eins og það var orð­ið. Að þeirri nið­ur­stöðu komust Icelanda­ir, Indigo Partners, íslenska ríkið og allir hinir fjár­fest­arnir sem leitað var til á síð­ustu metr­un­um. Líkt og segir í bók­inni þá var ein­fald­lega ekki for­svar­an­legt að henda góðum pen­ingum á eftir slæm­um.

Auglýsing
Gagnrýnin grein­ing höf­undar á með­höndlun opin­bera fyr­ir­tæk­is­ins Isa­via, sem rekur Kefla­vík­ur­flug­völl og leyfði WOW air að safna upp millj­arða skuld­um, og Sam­göngu­stofu, eft­ir­lits­að­il­ans sem hefur það hlut­verk að grípa inn í ef flug­rekstr­ar­leyf­is­hafar eru ekki rekstr­ar­hæfir, er sömu­leiðis rétt.

Lands­náms­hani og kampa­víns­flöskur

Sam­tíma­sögur af raun­veru­legum atburðum þurfa sögu­hetjur alveg eins og skáld­sög­ur. Óum­flýj­an­lega er Skúli Mog­en­sen í algjöru aðal­hlut­verki í bók Stef­áns Ein­ars. Þar er að finna nokkrar áhuga­verðar frá­sagnir af hon­um, sem sumar hafa lengi verið á margra vit­orði en ekki ratað í opin­beran texta. Þar ber til að mynda að nefna sög­una af land­náms­han­anum sem vinur Skúla gaf honum í fimm­tugs­af­mæl­is­gjöf í fyrra en var svo myrtur af Huskey-hundi eins veislu­gests­ins. Önnur slík er af því þegar Skúli sendi nokkrum af æðstu stjórn­endum Icelandair hana­sté­lið Key Royal – þannig blandað að það var fag­ur­fjólu­blátt – á Snaps skömmu eftir að til­kynnt hafði verið um mik­inn vöxt WOW air árið 2017. Sú þriðja lýs­ingar af því hvers konar kampa­víns­flaska sé kölluð tvö­faldur Jeró­bóam og hvað ein­kennir flösku sem kall­ast Rehóbóam.Landsnámshani.

Stefán Einar lýsir Skúla líka ágæt­lega, með hæfi­legri blöndu af virð­ingu fyrir kostum hans og gagn­rýni á aug­ljósa bresti. Í frá­sögn­inni er Skúli ævin­týra­maður sem neitar að spila eftir tak­mörk­unum sem aðrir telja rök­rétt­ar. Honum finnst Íslend­ingar að mörgu leyti heim­ótta­legir vegna þess að þeir þori ekki að stefna nægi­lega hátt. Skúli hefur enda ítrekað sagt það í við­tölum að honum hafi ekki nægt að verða „Ís­lands­meist­ari“ í flug­geir­an­um, heldur vildi hann verða „heims­meist­ari“. Sama hvernig áraði var Skúli alltaf bjart­sýnn. Það er lík­ast til erfitt að finna nokkurn mann sem heldur á jafn hálf­fullu glasi og hann. Hann hefur lít­inn tíma fyrir þá sem deila ekki með honum bjart­sýn­inni. Þeir eru nei­kvæð­ir. Ekki nægi­lega létt­ir. Hæl­bítar sem þora ekki að láta sig dreyma. 

Það er hins vegar munur á því að láta sig dreyma og því að lifa í drauma­heimi.

Í bók Stef­áns Ein­ars segir á blað­síðu 335: „En þegar horft er til baka, allt til áranna á Borg­inni og í Tungl­inu, OZ, aðkom­unnar að MP Banka og svo WOW air, þá stendur einn þáttur í fari Skúla upp úr og yfir­skyggir í raun alla aðra. Það eru hinir óum­deildu og lík­lega veiga­mestu hæfi­leikar Skúla. Hann er sölu­maður af Guðs náð og á betra en flestir með að hrífa fólk með sér og sann­færa um að sú leið, eða sýn sem hann boð­ar, sé hin rétta.“

Minnir á Ther­esu May

Það velk­ist eng­inn í vafa um það að Skúli Mog­en­sen er ekki maður sem gefst auð­veld­lega upp. Þrátt fyrir að ansi margir sem höfðu kíkt undir húddið í rekstri WOW air síð­sum­ars í fyrra hefðu kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu strax þá að félagið ætti ekki mögu­leika á að lifa af, úr því sem komið væri, þá barð­ist hann eins og ljón fram á síð­asta dag. 

Auglýsing
WOW air lifði þar af leið­andi mun lengur en margir sér­fræð­ingar höfðu talið raun­hæft. Úthald Skúla minnti á Ther­esy May, frá­far­andi for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands, og Brex­it-glímu henn­ar. Likt og hjá May þá stóð Skúli af sér ótrú­leg­ustu bar­daga en tap­aði óum­flýj­an­lega stríð­inu að lok­um.Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands.

Von­andi gengur Skúla Mog­en­sen líka vel í næsta verk­efni, sem er nær örugg­lega ekki langt und­an. Hann virð­ist strax vera búinn að end­ur­heimta kraft­inn til að gera, og kvart­aði nýverið undir því að vera farið að leið­ast aðgerð­ar­leysið, tveimur mán­uðum eftir gjald­þrot WOW air.

En von­andi lærir hann líka af reynsl­unni. Skúli gerði nefni­lega stór mis­tök sem höfðu miklar afleið­ingar fyrir fjöl­marga aðra en hann sjálf­an.

Þótt Skúli sé afar áhuga­verður þá hefði það gætt sög­una meira lífi ef fleiri per­sónur hefðu fengið meira pláss. Hún fer á flug þegar karakt­erar eins og Steve Udvar-Házy, stofn­andi og eig­andi Air Lease Cor­poration, kemur inn á sögu­svið­ið. Lýs­ing­arnar á honum eru afar skemmti­legar og eft­ir­minni­leg­ar.

Fram­halds­sagan ósögð

Það er afar vel gert að hafa skrifað þessa sögu á jafn skömmum tíma og Stefán Einar gerði og svo skömmu eftir að WOW air féll. Eina nei­kvæða við það er að enn eiga ýmis kurl eftir að koma til graf­ar. Þannig var til að mynda greint frá því á föstu­dag að ráð­ist verður í stjórn­sýslu­út­tekt á aðkomu Isa­via og Sam­göngu­stofu að mál­efnum WOW air og að nið­ur­staðan sé vænt­an­leg í haust.

Auglýsing
Ljóst er að margir kröfu­hafar WOW air eru afar ósáttir við mála­lykt­ir, sér­stak­lega þeir sem tóku þátt í skulda­bréfa­út­boði félags­ins, og nú stendur yfir rann­sókn Deloitte á öllum mál­efnum WOW air á vegum slita­bús þess. Nið­ur­staða hennar verður kynnt kröfu­höfum í ágúst. Þá liggur fyrir að efna­hags­leg áhrif falls WOW air á íslenskt sam­fé­lag, að minnsta kosti til skamms tíma, verða veru­leg og ekki sér almenni­lega fyrir end­ann á umfangi þeirra. Allt þetta eru púsl sem munu skipta máli, og gætu breytt sög­unni um WOW air umtals­vert. En Stefán Einar skrifar þá kannski bara fram­halds­bók ef með þarf.

Sam­an­dregið þá er „WOW – Ris og fall flug­fé­lags“ prýði­leg blaða­mennsku­bók. Hún flæðir vel, það er lítið um end­ur­tekn­ing­ar, hún tengir saman upp­lýs­ingar á skilj­an­legan hátt og greinir ferlið sem leiddi til gjald­þrots fjólu­bláa flug­fé­lags­ins með rök­studdum hætti. Von­andi erum við að horfa fram á að íslenskrar blaða­manna­bækur verði næsta æði í bóka­geir­anum – að framundan sé nýtt voraf­brigði í þeim geira – og útgef­endur hér­lendis horfi í auknum mæli til að gefa þannig bækur út. Slíkt yrði gott fyrir íslenska fjöl­miðlun og íslenskt sam­fé­lag. Það þarf nefni­lega að skrá sög­una með þessum hætti. Og Stefán Einar gerir það vel í bók­inni.

WOW – Ris og fall flugfélags

Stefán Einar Stef­áns­son

367. bls

Vaka-Helga­fell 2019

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk