Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp forsætisráðherra um breytingu á upplýsingalögum. Nefndin leggur til að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skuli birta úrskurð svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar. Í frumvarpi forsætisráðherra er fellt brott skilyrði um að úrskurð skuli kveða upp svo fljótt sem verða má en í stað þess áskilið að úrskurð skuli kveða upp innan 150 daga frá því kæra berst nefndinni. Þriðja umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í dag.
Nefndinni yfirsást breytinguna í frumvarpinu
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er framsögumaður málsins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að nefndinni hefði yfirsést að í frumvarpi forsætisráðherra hafi orðin „svo fljótt sem varða má“ fallið brott úr lögunum og í stað þess 150 daga hámarkstími komið inn. Hann sagði að því hefði hann óskað eftir því við nefndina að setningin fari aftur inn áður en frumvarpið verði samþykkt.
Í þriðju umræðu um frumvarpið á Alþingi í dag mælti Jón Þór fyrir breytingartillögu nefndarinnar en í henni segir að „úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar.“ Hann tók fram að öllum í nefndinni sammælist um þetta.
Handhöfum löggjafar- og dómsvalds skylt að að fylgja sömu efnisreglum
Í greinargerð frumvarps forsætisráðherra segir að frumvarpið sé afrakstur nefndar sem ráðherra skipaði þann 16. mars 2018 um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis, sem var meðal annars falið að fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf væri á lagabreytingum.
Samkvæmt greinargerðinni er helsta breytingin, sem lögð er fram í frumvarpinu, að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað út þannig að handhöfum löggjafar- og dómsvalds verði að meginstefnu skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhafar framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra. Jafnframt segir að markmið frumvarpsins sé að kveða skýrar á um skyldu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands til birtingar upplýsinga úr málaskrám sínum að eigin frumkvæði.
Nýju starfi ráðgjafa um upplýsingamál komið á fót
Ennfremur lagt til í frumvarpinu að sérstakur ráðgjafi starfi fyrir hönd stjórnvalda með það markmið að auka veg upplýsingaréttar almennings. Þá er lagt til að búið verði þannig um hnútana að æðstu handhafar ríkisvalds geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og skerpt á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining.
Þá segir í greinargerðinni að í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu hafi komið fram að afgreiðslutími úrskurðarnefndar um upplýsingamál sé of langur til að hún gegni nægjanlega virku hlutverki við að snúa við efnislega röngum ákvörðunum um upplýsingarétt almenning. Því hafi verið sett fram strangari tímamörk á afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í frumvarpinu. Í frumvarpinu var því fellt brott skilyrði um að úrskurð skuli kveða upp svo fljótt sem verða má en í stað þess áskilið að úrskurð skuli kveða upp innan 150 daga frá því kæra berst nefndinni.