Alls hafa 89 fyrirtæki og stofnanir hlotið jafnlaunavottun, en lög um jafnlaunavottun ná yfir öll fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri. Jafnréttisstofa hefur rétt til að beita fyrirtæki sektum nái þau ekki að uppfylla kröfur um vottun fyrir tilsettan tíma.
Háskóli Íslands hlaut nýverið jafnlaunavottun, sem er jafnframt fjölmennasta stofnunin til að fá slíka vottun á Íslandi hingað til. Háskólinn hefur um 4.800 starfsmenn. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands hófst úttekt innan hans á launakerfi hans stuttu eftir að lög um jafnlaunavottun voru staðfest á Alþingi árið 2017.
Samkvæmt upplýsingum á vefsvæði Stjórnarráðsins ná lögin til 1.180 atvinnurekenda, það er um 147.000 launamanna alls sem jafngildir um 80 prósent þeirra sem virkir eru á vinnumarkaði.
Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Staðallinn á að tryggja fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns, samkvæmt Jafnréttisstofu. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Launamunur óásættanlegur
Sérstökum stýrihóp var komið á um jafnlaunavottun innan Háskólans og var um flókið verk að ræða, að því er kemur fram í tilkynningunni, þar sem verkefnið náði til starfsmanna við kennslu og rannsóknir, til fastráðins starfsfólks og þeirra sem eru í tímabundnum stöðum, stjórnsýslu og stoðþjónustu og þeirra sem vinna við stundakennslu.
Samkvæmt niðurstöðum launagreiningar innan Háskólann var meðalmunur á uppreiknuðum heildarlaunum karla og kvenna án tillits til skýribreyta 11,9 prósent körlum í hag. Þegar tekið var tillit til helstu bakgrunnsþátta, svo sem menntunar, stöðu í skipuriti, aldurs, starfsaldurs, breytilegra yfirvinnutíma, tíma í stundakennslu og starfsheitis reyndist meðallaunamunur á uppreiknuðum heildarlaunum vera 1,5 prósent körlum í hag.
Að sögn Jón Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, er mikilvægt að tryggja að enginn launamunur verði til staðar innan skólans, allt annað sé óásættanlegt.
Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og séu þau uppfyllt veitir hann viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun, að því er segir á vefsíðu Jafnréttisstofu.
Dagsektir möguleiki
Jafnréttisstofa getur beitt fyrirtæki sem ekki hafa fengið vottun en ber skylda til að fá slíka allt að 50 þúsund króna dagsektum, að því er kemur fram í fyrri umfjöllun Kjarnans.
Jafnréttisstofa hefur heimild til að beita þau fyrirtæki, sem ekki hafa fengið vottun, allt að 50 þúsund króna dagsektum. Jafnlaunavottun skal vera endurnýjuð á þriggja ára fresti.
89 fyrirtæki og stofnanir hafa hlotið vottun
Jafnréttisstofa heldur skrá yfir þær stofnanir og fyrirtæki sem hlotið hafa vottun. Í júní 2019 höfðu 89 fyrirtæki og stofnanir hlotið janflaunavottun.
Þá heldur Jafnréttisstofa skrá yfir fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli, sem hafa ekki öðlast vottun. Skal þar koma fram hvort hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun hafi leitað eftir úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi viðkomandi og framkvæmd þess í því skyni að öðlast vottun. Skulu samtök aðila vinnumarkaðarins hafa aðgang að skránni.
Tilgangur jafnlaunavottunar er að „draga úr kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna, efnahagslegu jafnræði sem að endingu mun meðal annars skila sér í jafnari lífeyrisgreiðslum kvenna og karla.“ Þar að auki er markmiðið að„jafnlaunavottunarferlið auki almenna starfsánægju og trú starfsmanna á að mannauðsstjórnun atvinnurekanda sé fagleg og að það bæti sýn stjórnenda á starfsmanna- og launamál sem auðveldi þeim starfsmannahald og rökstuðning við launaákvarðanir. Afraksturinn verði gagnsærra og réttlátara launakerfi.“
Frestur allt til 31. desember 2022
Tímamörk um hvenær vottunarferlinu skal vera lokið er mismunandi og fer eftir fjölda starfsmanna. Fyrirtæki og stofnanir geta hlotið frest til þess að innleiða jafnlaunakerfi sem uppfyllir kröfur staðalsins. Núverandi frestur gildir frá 31. desember 2019 fyrir fyrirtæki og stofnanir með 250 eða fleiri starfsmenn, allt til 31. desember árið 2022 fyrir fyrirtæki og stofnanir með 25-89 starfsmenn.