Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Primera Air, greiddi þrotabúi Primera Air tæplega 200 milljónir króna í reiðufé gegn því að fallið yrði frá málsóknum á hendur honum. Andri Már samþykkti til viðbótar að falla frá þeim kröfum sem hann hafði áður lýst í þrotabúið. Kröfur hans og félaga á hans vegum námu samanlagt ríflega tveimur milljörðum króna. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Náðu samkomulagi í síðasta mánuði
Primera Air hætti í október síðastliðnum starfsemi eftir fjórtán ár í rekstri og var flugfélagið, ásamt dótturfélögum sínum í Danmörku og Lettlandi, í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta. Stjórnendur flugfélagsins sögðu í kjölfar gjaldþrotsins að horfur á flugmarkaði hefðu farið hratt versnandi, með hækkandi olíuverði og lækkandi flugfargjöldum, og ekki hefði tekist að tryggja félaginu fjármögnun til langs tíma.
Samkvæmt heimildum Markaðarins náðist samkomulag á milli Andra Más og þrotabús Primera Air á Íslandi, sem hæstaréttarlögmaðurinn Eiríkur Elís Þorláksson stýrir, í síðasta mánuði. Lýstar kröfur í búið nema rúmlega 10 milljörðum króna af þeim nema kröfur frá Arion banka samtals um 4,8 milljörðum króna. Arion banki þurfti að færa niður tæplega þrjá milljarða króna í ábyrgðum og lánveitingum vegna gjaldþrotsins. Andri Már var næst stærsti kröfuhafi búsins á eftir bankanum en líkt og greint var frá hér á ofan samþykkti Andri Már að falla frá þeim kröfum sem hann hafði áur lýst í þrotabúið. Samkvæmt heimildum Markaðarins námu kröfur hans og félaga á hans vegum, þar á meðal félags í eigu dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours, námu samanlagt ríflega tveimur milljörðum króna.
Í febrúar í fyrra var greint frá því að rannsóknir skiptastjóra búsins hefðu leitt í ljós að mögulegt væri að fyrirsvarsmenn félagsins hefðu bakað því tjón í að minnsta kosti tveimur tilvika. Í rannsóknarskýrslu skiptastjórans kom jafnframt fram að athugun skiptastjóra á reikningsskilum flugfélagsins gætu leitt til mögulegrar fjárkröfu á hendur þeim sem báru ábyrgð á reikningsskilunum. Þá hygði skiptastjórinn að höfða riftunarmál fyrir dómstólum, meðal annars á hendur Andra Már persónulega vegna tveggja ráðstafana Primera Air að fjárhæð samtals 520 milljónir. Nú er aftur á móti ljóst að ekkert verður af málsóknum gegn fyrrverandi aðaleiganda Primera-samstæðunnar.