Alþingi samþykkti í gær frumvarp um breytingar á lögum um helgidagafrið. Frumvarpið kveður á um að felld verði niður ákvæði í lögum um helgidagafrið sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar. Alls greiddu níu þingmenn gegn frumvarpinu, allt þingmenn Miðflokksins.
Verður hver að fá gera með sínu lagi
Sigríðar Á. Andersen, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frumvarpið en þingflokkur Pírata hafði tvisvar áður lagt fram frumvarp þess efnis. Samkvæmt vef Alþingis er markmiðið með lögunum að auka frelsi til atvinnurekstrar á helgidögum þjóðkirkjunnar og koma til móts við þá sem njóta vilja þjónustu og afþreyingar á þessum dögum.
Í Facebook-færslu Sigríðar um samþykkt frumvarpsins segir að nú hafi verið hrundið úr vegi síðustu hindrunum við að veita og njóta þjónustu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar. „Ég lagði á það áherslu í framsöguræðu minni að með frumvarpinu væri ekki stefnt að því að draga úr vægi helgidagafriðs. Umræddir dagar eru hluti af okkar kristnu arfleifð og þess er sjálfsagt að minnast er þeir renna upp. Það verður hins vegar hver að fá að gera með sínu lagi. Sá friður sem æskilegt er að ríki þessa daga sem aðra er einkum innri friður hvers og eins okkar. Sú ró verður ekki fengin með lögum,“ segir Sigríður.
Bingó sérstaklega bannað
Í lögum um helgidag segir að á helgidögum sé eftirfrandi starfsemi óheimil; skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Auk þess eru markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi óheimil. Ákveðin starfsemi er þó undanþegin banninu þar á meðal starfsemi lyfjabúða og bensínstöðva.
Samkvæmt lögunum eru helgidagar þjóðkirkjunnar, sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu. Auk þess föstudagurinn langi, páskadagur , hvítasunnudagur og aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags
Félagið Vantrú er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa lögin en félagið hefur staðið fyrir árlegu ólöglegu bingó Vantrúar á föstudaginn langa. „Það er auðvitað öllum í sjálfsvald sett að spila ekki bingó og gera ekki neitt skemmtilegt af trúarástæðum en það er rangt að þvinga alla til að fara að því," sagði Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar, í samtali við Vísir í fyrra.
Nú er hins vegar ekki lengur bannað að bjóða upp tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar, en áfram verður þó óheimilt að trufla guðsþjónustu, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar samkvæmt lögunum.