Fyrirtæki og stofnanir með 250 starfsmenn eða fleiri hafa til lok árs að fá jafnlaunavottun. Hafi slík fyrirtæki ekki öðlast vottunina fara þau á opinberan lista Jafnréttisstofu, að því er kemur fram í svari frá Jafnréttisstofu við fyrirspurn Kjarnans.
Slíkur listi yfir fyrirtæki og stofnanir sem þegar hafa hlotið jafnlaunavottun er nú þegar til og aðgengilegur á vefsvæði Jafnréttisstofu. Hann hefur þó enn ekki verið búinn til fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem ekki hafa slíka vottun, þar sem fresturinn er enn ekki liðinn.
Um einn lista verður að ræða þegar upp verði staðið, að því er kemur fram í svari Jafnréttisstofu. Tímamörk um hvenær vottunarferlinu skal vera lokið er mismunandi og fer eftir fjölda starfsmanna.
2,8 prósent fyrirtækja með 25-89 starfsmenn með vottun
Nú eru um 862 fyrirtæki með 25-89 starfsmenn. Þar af hafa einungis 24 hlotið jafnlaunavottun. Það þýðir að einungis um 2,8 prósent fyrirtækja í þeim flokki eru með jafnlaunavottun.
Vert er þó að hafa í huga að tala þeirra 862 fyrirtækja með slíkan fjölda starfsmanna getur verið breytilegur. Auk þess hafa slík fyrirtæki til 31. desember 2022 til þess að öðlast slíka vottun.
Jafnréttisstofa getur beitt dagsektum.
Samkvæmt reglugerð um jafnlaunavottun hefur Jafnréttisstofa rétt til að beita dagsektum. Dagsektirnar verða gerðar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Jafnréttisstofa getur beitt fyrirtæki sem ekki hafa fengið vottun en ber skylda til að fá slíka allt að 50 þúsund króna dagsektum, að því er kemur fram í fyrri umfjöllun Kjarnans.
Jafnréttisstofa hefur heimild til að beita þau fyrirtæki, sem ekki hafa fengið vottun, allt að 50 þúsund króna dagsektum. Jafnlaunavottun skal vera endurnýjuð á þriggja ára fresti.