Fjöldi ferðamanna í maí 2019 er 24 prósentum færri miðað við í maí í fyrra. Þeir voru 111 þúsund nú eða 36 þúsund færri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er mesti samdráttur erlendra farþega og erlendra ferðamanna frá því að talning ferðamanna hófst, að því er kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
Í apríl 2019 var hins vegar næstmesti samdráttur í fjölda ferðamanna innan sama mánaðar miðað við apríl 2018. Fækkunin á milli ára nam þá 19 prósentum.
Launþegum í ferðaþjónustu fækkar
Samkvæmt Hagstofunni fækkar launþegum í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu um fimm prósent milli ára, eða úr 27.300 í 25.900.
Af atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu var mesta fækkunin í farþegaflutningum með flugi þar sem fækkunin nam 18 prósentum á milli ára. Fjöldi launþega fór þá úr 4.700 í 3.900.
Fækkar um rúmlega íbúafjölda landsins milli ára
Búast má við því að fækkun ferðamanna verði viðvarandi út þetta ár. Samkvæmt uppfærðri farþegaspá Isavia, sem birt var í síðustu viku, mun fjöldi erlendra farþega sem koma til Íslands verða 1.927 þúsund á þessu ári. Það eru 388 þúsund færri farþegar en komu hingað til lands í fyrra, sem var metár.
Til samanburðar voru allir íbúar landsins samanlagt 358.780 talsins í lok mars síðastliðnum. Því mun ferðamönnum sem sækja Ísland heim fækka um rúmlega mannfjölda landsins milli áranna 2018 og 2019.
Þá mun skiptifarþegum sem koma til Íslands fækka um 43 prósent milli ára, úr tæplega 3,9 milljónum í tæplega 2,2 milljónir.
Helsta ástæða þessa er gjaldþrot WOW air 28. mars síðastliðinn og óvissa vegna stöðu Boeing MAX flugvéla Icelandair, sem óvíst er hvenær muni komast aftur í gagnið.