Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, ræddi um þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi síðastliðin 75 ár í ávarpi sínu á Austurvelli á 75 ára afmæli lýðveldisins í dag, 17. júní.
Í frétt Stjórnarráðsins um ávarpið kemur fram að hún hafi minnst á þá umbyltingu sem orðið hefði á öllum sviðum á Íslandi frá lýðveldisstofnun og hafi hún nefnt í því samhengi að samfélagið væri meðal þeirra fremstu í heimi þegar kæmi að jöfnuði og velsæld.
„Hugsanlega erum við stödd í öðrum slíkum straumhvörfum nú þegar börn og ungmenni gera ríkari kröfur en nokkru sinni fyrr til að skoðanir þeirra séu teknar gildar í pólitískri umræðu samtímans, eins og sést á vikulegum loftslagsverkföllum hér á þessum bletti. Það getur nefnilega allt breyst, líka það sem virðist klappað í stein. Nú hefur runnið upp fyrir flestum hvaða áhrif menn hafa á loftslagið, og það er það sem unga kynslóðin gerir nú skýra kröfu um: að eldri kynslóðir geri nú allt sem í mannlegu valdi stendur til að sporna gegn þessum hamförum. Stjórnvöld hafa sett fram skýra sýn um að Ísland verði kolefnishlutlaust ekki seinna en árið 2040 og Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ sagði Katrín.
Hlutverk þingmanna að vera fulltrúar þjóðarinnar allrar
Þá ræddi forsætisráðherra hvernig ákvarðanir stjórnvalda gætu haft áhrif á líf fjöldans og nefndi í því samhengi lengingu fæðingarorlofs, uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins og ákvarðanir er varða umhverfið og loftslagið.
Hún sagði enn fremur að hlutverk þingmanna væri að vera fulltrúar þjóðarinnar allrar, ekki aðeins eigin kjósenda, og standa vörð um og tryggja að undirstöðustofnanir hins frjálslynda lýðræðis virki sem skyldi í þágu alls almennings og tryggi opið samfélag, vernd minnihlutahópa, mannréttindi og þrískiptingu ríkisvalds.
Katrin sagði það mikilvægt að ræða reglulega stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna en eitt mætti læra af sögunni. „Í senn er mikilvægt að standa með sjálfum sér og gæta að því sem við eigum: landi, tungu og menningu. En líka að muna að við erum fullvalda þjóð og getum sem slík átt samskipti við hvern sem er á jafnræðisgrundvelli. Við varðveitum ekki fullveldið með því að flýja undan öðrum því þá er hættan að fyrir okkur fari eins og Bjarti í Sumarhúsum sem fór úr einum næturstað í annan verri. Mætum öðrum þjóðum á jafnræðisgrundvelli en tryggjum um leið hagsmuni almennings í landinu.“
Hægt er að lesa ávarpið hér.