Aldrei hafa fleiri umsóknir borist Íbúðalánasjóði um stofnframlög ríkisins til kaupa og byggingar almennra íbúða en í ár. Alls bárust 44 umsóknar um þá rúmlega þrjá milljarða sem úthlutað verður á árinu 2019. Markmið stofnframlaganna er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu. Íbúðalánasjóður áætlar að heildarfjárfesting í öruggu leiguhúsnæði fyrir almenning muni nema á bilinu 60 til 75 milljörðum á árunum 2016 til 2024.
Leiguíbúðir fyrir almenning með stofnframlögum
Árið 2016 var hafist handa við að innleiða stofnframlög sem nýtt form af opinberum húsnæðisstuðningi með það fyrir augum að slá á þann mikla húsnæðisvanda sem lág- og lægri millitekjuhópar hafa mátt stríða við síðustu ár. Stofnframlög er húsnæðilausn sem byggir á danskri fyrirmynd og felur í sér að félagasamtök, sveitarfélög og aðrir aðilar sem uppfylla ákveðin skilyrði geta fengið eiginfjárframlag frá ríki og sveitarfélögum til að byggja og reka leiguhúsnæði þar sem íbúar öðlast rétt til öruggrar langtímaleigu.
Til að eiga rétt á slíkri íbúð mega tekjur og eignir fólks ekki vera yfir ákveðnum mörkum. Tilgangurinn með því að setja þessi skilyrði er að tryggja að sá hluti almennings sem mest hefur liðið fyrir háa húsaleigu gangi fyrir í þessu kerfi. Markmiðið er að fólk sem fær úthlutað öruggri leiguíbúð þurfi ekki að verja meira en 25 prósent af tekjum sínum í leigugreiðslur.
Frá árinu 2016 hefur Íbúðalánasjóður úthlutað 8,5 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 1.592 öruggum leiguíbúðum sem fólk í lág- og lægri millitekjuhópum á rétt á að leigja. Á síðustu þremur árum hefur hlutfallsleg skipting stofnframlaga á milli nýbygginga og keyptra íbúða, verið 82 prósent nýbygginga og 18 prósent kaup.
Sótt um sex milljarða króna
Umsóknum til stofnframlaga hafa aukist með hverju ári síðustu þrjú ár en í ár var metaðsókn. Alls bárust alls 44 umsóknar um þá rúmlega þrjár milljónir sem úthlutaðir verða í ár. Sveitarfélög á hverjum stað leggja einnig fram stofnframlag í formi beins fjárframlags, lóða eða niðurfellingu opinberra gjalda.
Sótt var um stofnframlag vegna 915 íbúða, þarf af til byggingar á 619 íbúðum og kaupum á 296 íbúðum sem staðsettar yrðu vítt og breitt um landið eða alls í 22 sveitarfélögum. Heildarfjárhæð stofnframlaga ríkisins sem sótt er um er rúmir 6 milljarða króna en heildarfjárhæð umsókna um stofnframlag sveitarfélaga er tæpir fjórir milljarðar króna. Íbúðirnar eru ætlaðar tekju- og eignaminni leigjendum, þar með talið námsmönnum, öldruðum, fötluðu fólki og skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélaga. Heildarframkvæmdarkostnaður verkefnanna er áætlaður um 29,8 milljarðar króna.
Fjármagn sem veitt er til stofnstyrkja er ákveðið í fjárlögum á hverju ári og ef ekki er unnt að samþykkja allar umsóknir metur Íbúðalánasjóður á hvaða svæði er brýnust þörf fyrir leiguhúsnæði fyrir leigjendur undir tekju- og eignarmörkum.
Ólafur Þór Þorláksson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs Íbúðalánasjóðs, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að unnið sé að því að fara yfir umsóknirnar og að næsta úthlutun sjóðsins muni fara fram í sumar. Hann segir jafnframt að á næstu þremur árum er áætlað að úthluta sambærilegum fjárhæðum innan kerfisins, eða rúmlega 3 milljörðum króna árlega og 1,5 milljarði árlega tvö ár eftir það.
Ríkið getur auk þess veitt 6 prósent viðbótarframlag
Stofnframlag ríkisins getur numið 18 prósent af stofnverði íbúðar og getur verið í formi beins framlags eða vaxtaniðurgreiðslu. Framlag ríkisins er ígildi eigin fjár en framlag sveitarfélaga getur falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að greiða til sveitarfélagsins vegna íbúðanna.
Ríkið getur auk þess veitt 6 prósent viðbótarframlag og sveitarfélag 4 prósent viðbótarframlag til svæða þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki á svæðinu eða sérstök vandkvæði hafa verið í fjármögnun á almennum markaði.
Einnig getur ríkið veitt 4 prósent viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum og öryrkjum.
Heildarfjárfestingin nemur allt að 75 milljörðum á tímabilinu
Ólafur segir að það megi áætla að heildarfjárfesting í öruggu leiguhúsnæði fyrir almenning muni nema á bilinu 60 til 75 milljörðum króna á árunum 2016 til 2024. Í þeirri tölu er meðtalið framlag byggingaraðilanna sjálfra sem byggja munu rúmlega þrjú þúsund íbúðir á tímabilinu.
Hann segir að af heildarfjárfestingu munu stofnframlög ríkisins nema á bilinu 22 til 23 milljörðum króna en að endaleg tala muni þó ráðast af samsetningu verkefna og þróun byggingarkostnaður. „Endanleg tala ræðst af samsetningu verkefna og þróun byggingarkostnaðar en óhætt er að fullyrða að um sé að ræðaeinhverjar umfangsmestu húsnæðisframkvæmdir í Íslandssögunni,“ segir Ólafur.